Íslenski boltinn

KSÍ þarf að skerpa á sínum reglum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hannes tók ekki út leikbann í leiknum gegn Breiðablik í síðustu viku. Rúnar Alex Rúnarsson verður í rammanum á sunnudaginn.
Hannes tók ekki út leikbann í leiknum gegn Breiðablik í síðustu viku. Rúnar Alex Rúnarsson verður í rammanum á sunnudaginn. Mynd/Stefán
Stjórn KSÍ hefur tekið ákvörðun í máli Hannesar Þórs Halldórssonar, markvarðar KR. Hann var í leikbanni í leiknum gegn Breiðablik á sunnudagskvöld en leikurinn var eins og kunnugt er flautaður af vegna höfuðmeiðsla sem Elfar Árni Aðalsteinsson, leikmaður Blika, varð fyrir eftir aðeins fjögurra mínútna leik.

Sumir sparkspekingar töldu að leikmaðurinn hefði því tekið út leikbann en nú hefur sú ákvörðun verið tekin að Hannes verður í leikbanni í stórleiknum gegn FH næstkomandi sunnudag.

Einnig hefur verið ákveðið að hinn frestaði leikur Breiðabliks og KR fari fram þann 19. september.

„Við munum að sjálfsögðu una þessum úrskurði,“ segir Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, í samtali við Fréttablaðið.

„Það sem stendur eftir er samt sem áður að KSÍ þarf að skerpa á sínum reglum og setja hlutina fram á skýrari hátt.“

Samkvæmt aga- og úrskurðareglum FIFA hefur leikmaður tekið út leikbann ef það er ekki á ábyrgð félagsliðs hans sem leikurinn er stöðvaður.

„Við vorum einmitt búnir að kynna okkur þessi mál og það er einkennilegt að KSÍ starfi eftir öðrum reglum en Alþjóða knattspyrnusambandið. Við treystum aftur á móti Rúnari Alex [Rúnarssyni] fyllilega fyrir verkefninu og hlökkum til leiksins gegn FH.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.