Fótbolti

Viss stimpill á mín eigin gæði

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gunnar Heiðar Þorvaldsson mun leika í sömu deild og Didier Drogba og Wesley Sneijder á næsta tímabili á Tyrklandi.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson mun leika í sömu deild og Didier Drogba og Wesley Sneijder á næsta tímabili á Tyrklandi. Mynd / getty images
Gunnar Heiðar Þorvaldsson skrifaði í gær undir tveggja ára samning við tyrkneska félagið Konyaspor, en liðið vann sér sæti í tyrknesku úrvalsdeildinni í vor. Leikmaðurinn stóðst læknisskoðun um helgina og skrifaði í framhaldinu af því undir samning við félagið.

Gunnar átti þrjá mánuði eftir af samningi sínum við sænska félagið Norrköping og fær það dágóða summu fyrir leikmanninn.

„Ég er virkilega ánægður með að mitt gamla félag fær einhvern pening fyrir mig en þjálfarinn og allir í kringum Norrköping hafa reynst mér gríðarlega vel,“ segir Gunnar Heiðar.

Eyjamaðurinn gekk í raðir ÍBV árið 2011 og ætlaði sér þá að setjast að á Ísland. Ferill hans hefur verið sveiflukenndur en Gunnar hafði áður leikið með Halmstad, Hannover, Vålerenga, Esbjerg, Reading og Fredrikstad áður en hann gekk í raðir Norrköping.

„Það er gaman að ná góðum árangri og vekja athygli sterkra liða í Evrópu, sérstaklega eftir að halla fór undan fæti hjá mér um tíma,“ segir Gunnar Heiðar, en Konyaspor ætlar sér stóra hluti í úrvalsdeildinni.

„Þetta er ótrúlega spennandi verkefni og eigendur félagsins eru með háleit markmið. Þetta ferðalag mitt hefur kostað mikla vinnu og ótrúlegt að maður sé allt í einu kominn í deild með heimsklassaleikmönnum. Viss stimpill á mín eigin gæði.“

Gunnar mun því leika knattspyrnu í Tyrklandi en tímabilið þar hefst í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×