Skoðun

Að gera úlfalda úr mýflugu

Magnús Guðmundsson skrifar
Undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar fjallað um þá ákvörðun kjararáðs frá því í lok júní 2013 að leiðrétta kjör nokkurra forstöðumanna ríkisstofnana. Umfjöllunin hefur verið misvísandi og mátt hefur skilja að allir forstöðumenn hafi fengið launahækkanir. Það er rangt og það sem verra er, kjararáð hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni að upplýsa og leiðrétta misskilninginn. Vegna þessa er mikilvægt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:

1. Í Félagi forstöðumanna ríkisstofnana eru um 200 forstöðumenn ríkisstofnana sem hafa hvorki verkfalls- né samningsrétt.

2. Kjararáði er ætlað samkvæmt lögum að ákveða kjör forstöðumanna ríkisstofnana og ber ráðinu að gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Kjararáð skal samkvæmt lögum ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.

3. Ákvörðun kjararáðs frá því í lok júní 2013 varðaði aðeins um tuttugu af 200 forstöðumönnum ríkisstofnana sem eru í forsvari opinberra hlutafélaga. Laun þessa litla hóps voru lækkuð mikið og fryst í kjölfar efnahagshrunsins. Með ákvörðun kjararáðs í lok júní 2013 voru laun þessara stjórnenda færð í átt að því sem þau voru fyrir hrun og því var ekki um að ræða launahækkanir heldur leiðréttingar á launalækkunum.

Ákvarðanir um starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana eru með sérstökum hætti eins og að framan greinir en því miður kemur ítrekað upp neikvæð umræða þegar kjararáð ákveður laun þessa hóps. Þessi neikvæða umræða er skaðleg, ekki síst vegna þess að flestir vilja njóta góðrar þjónustu opinberra stofnana s.s. sjúkrahúsa, lögreglu, dómstóla, framhaldsskóla og háskóla. Til þess að svo megi verða þarf góða stjórnendur og öflugt vel menntað starfsfólk sem á skilið virðingu og hrós fyrir störf sín.




Skoðun

Sjá meira


×