Skoðun

Viltu pening?

Guðmundur Örn Jónsson skrifar
Sagt er um fátækari Bandaríkjamenn að þeir líti á sig sem milljónamæringa í tímabundnum fjárhagserfiðleikum og kjósi því, gegn eigin hag, flokka sem berjast fyrir sérhagsmunum milljónamæringa. Í raun er ástæðan sú að kjósendur eru oft mjög illa upplýstir og sýna rannsóknir frá Bandaríkjunum og Evrópu að þeir eiga erfitt með að sjá hvaða stjórnmálaflokkur stendur hugsjónum og hagsmunum þeirra næst.

Á sínum tíma vissi t.d. aðeins helmingur Bandaríkjamanna hvaða stjórnmálaflokkur hafði meirihluta í þinginu þar í landi og enn færri hvað eini þingmaðurinn í kjördæminu þeirra hét. Þekking kjósenda er þó mismunandi. Þannig eru þeir fátækustu að jafnaði verst upplýstir en þekking eykst með menntun.

Þegar kjósendur eru illa upplýstir byggist valið í kjörklefanum oft á öðru en stefnu flokka. Þannig getur t.d. skipt máli hvort tiltekinn frambjóðandi borðar á McDonalds eða spilar golf, og því er t.d. svo mikilvægt fyrir stjórnmálamenn að komast „Í nærmynd“ á Stöð 2.

Sáraeinföld loforð

Framsóknarmenn vita þetta og loforð þeirra hafa verið sáraeinföld. Fyrst voru það 90% íbúðalán og nú 20% lækkun íbúðalána. Því kjósa fátækari og minna menntaðir Íslendingar þá í hópum, þrátt fyrir að fyrri vinstristjórn hafi notið algerrar sérstöðu á Vesturlöndum í varðstöðu um hagsmuni þeirra.

Við jafnaðarmenn mættum því taka Framsóknarmenn okkur til fyrirmyndar þegar kemur að framsetningu stefnumála okkar, t.d. í auðlindamálum. Þar ætti að segja kjósendum að þeir eigi náttúruauðlindir og þeim beri allur arðurinn af þeim. Eins og annar arður ætti sá arður að fara beint í vasa eigendanna, þ.e.a.s. Íslendinga, en ekki í ríkissjóð. Í ríkissjóði blandast arðurinn við aðrar tekjur ríkisins sem tryggir að kjósendur sjá engan hag af honum og hafa því lítinn áhuga á honum.

Í Alaska fær hver íbúi greidda um 1.000 dollara árlega í auðlindaarð, sem jafngildir 40 þúsund krónum á mánuði til hverrar fjögurra manna fjölskyldu. Enda er Alaska það ríki Bandaríkjanna þar sem ójöfnuður er minnstur. Samkvæmt áliti sérfræðinga gæti auðlindaarður Íslendinga orðið töluvert meiri ef rétt er haldið á spöðunum, með uppboði aflaheimilda og arðbærum rekstri Landsvirkjunar.

En við jafnaðarmenn viljum fá auðlindaarðinn til að fjármagna mennta- og heilbrigðiskerfið og litlar líkur eru á því að það breytist. Það skýrir af hverju svo fáir styðja okkur. Íslendingar sýndu nefnilega skýrt í kosningunum um Icesave að við viljum ekki greiða pening og í seinustu kosningum að við viljum fá pening. Því mun auðlindaarðurinn áfram renna til lítils forréttindahóps.




Skoðun

Sjá meira


×