Skoðun

Umdeilt mál á fyrsta degi

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
Fyrsta mál nýrrar ríkisstjórnar var að draga til baka áður boðaða hækkun á virðisaukaskatti á gistingu. Rökin eru kunnugleg; lægri skattar munu bæta samkeppnisstöðuna og skila meiri tekjum til lengri tíma. Það var einmitt það já.

Árið 1994 var lagður 14% virðisaukaskattur á gistingu og árið 2007 var skatturinn lækkaður í 7%. Á síðasta þingi lagði ríkisstjórnin til að virðisaukaskattur á gistingu yrði hækkaður í 25,5% í samræmi við flestar vörur og þjónustu. Þingmenn Bjartrar framtíðar lögðust gegn svo hárri hækkun og gagnrýndu að hana bæri of brátt að. Seljendur þyrftu tíma til aðlögunar.

Fallist var á þessi rök að hluta og ákveðið að setja gistingu í nýtt 14% skattþrep. Gert var ráð fyrir að skatturinn myndi skila ríkinu 500 milljónum í ár og 1.500 milljónum árið 2014 og eftirleiðis.

Við vissum ekki betur en að sátt hefði verið um þessa niðurstöðu.

Ferðaþjónustan er öflug atvinnugrein sem nýtur lágs gengis krónunnar og er aflögufær. Skatturinn er auk þess mest greiddur af ferðamönnum í erlendum gjaldeyri sem okkur bráðvantar. Í umræðum á þingi kom m.a. fram að gisting er um 11% af þeim heildarkostnaði sem ferðamaður leggur út vegna heimsóknar sinnar til Íslands. Hækkun um 7 prósentustig hefði því ekki úrslitaáhrif og er varla meira en flöktið á krónunni á „góðum“ degi. Þá var bent á að ferðaþjónustan greiðir 7% vask af gistingu en innheimtir 25,5% vask af keyptri vöru og þjónustu. Innskattur hefur því verið hærri en útskattur frá 2007.

Það væri vissulega draumastaða að geta lækkað skatta og aukið tekjur á sama tíma. Ég held að þetta sé hins vegar ekki rétti tíminn til að láta reyna á þessa umdeildu kenningu. Ég andmæli því ekki að skattheimta getur orðið of mikil en í þessu tilfelli var engin ástæða til að draga í land. Staða ríkissjóðs er nefnilega mjög slæm eins og stjórnvöld uppgötvuðu jú skyndilega eftir kosningar.




Skoðun

Sjá meira


×