Innlent

Vilja að Gunnar taki við Krossinum á ný

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Gunnar Þorsteinsson, betur þekktur sem Gunnar í Krossinum, nýtur enn stuðnings meðal söfnuðarins. Fréttablaðið/Anton
Gunnar Þorsteinsson, betur þekktur sem Gunnar í Krossinum, nýtur enn stuðnings meðal söfnuðarins. Fréttablaðið/Anton
Stuðningsfólk Gunnars í Krossinum telur að hann eigi að hefja störf á ný hjá söfnuðinum sem fyrst, samkvæmt yfirlýsingu sem send var út í dag.

Árlegur aðalfundur Krossins var haldinn 3. júní síðastliðinn en þar átti að skipa í nýja stjórn.

Stuðningsmenn núverandi stjórnar notuðu umboð frá safnaðarmeðlimum til að kjósa fyrir þá sem ekki treystu sér til að mæta á fundinn.

Vegna deilu um lögmæti umboðanna í kosningunni leystist fundurinn upp og urðu safnaðarmeðlimir afar heiftugir samkvæmt heimildum Vísis. Kallað var til lögreglu sem batt enda á upplausnarástand á fundinum.

Ekki hefur enn verið haldinn aðalfundur hjá Krossinum í ár. Samkvæmt samþykktum safnaðarins á fundurinn að vera haldinn í apríl ár hvert eða eftir ákvörðun stjórnar.

Í yfirlýsingu krefst stuðningshópurinn þess að núverandi stjórn Krossins víki eða boði til nýrra kosninga undir eins.

„Við viljum Gunnar Þorsteinsson aftur sem leiðtoga kirkjunnar enda aldrei orðið vör við neitt ósiðlegt í hans fari. Við teljum ásakanir þeirra kvenna sem báru á hann sakir rökleysu og að þær snúist um völd og yfirráð í kirkjunni,“ segir í yfirlýsingunni.

Sigurbjörg Gunnarsdóttir, núverandi forstöðumaður Krossins og dóttir Gunnars, segir að málið sé í skoðun og verið sé að kanna lögmæti kosninganna. „Þegar ferlinu lýkur verður boðað til fundar og kosið um nýja stjórn,“ segir Sigurbjörg og fullyrðir að málið snúist ekki um valdabaráttu við föður sinn.

"Hann kom með fullt af fólki með sér á fundinn sem ég hef aldrei séð áður," bætir Sigurbjörg við.







Jónína Ben eiginkona Gunnars í Krossinum. Mynd/Kristinn
Jónína Benediktsdóttir, eiginkona Gunnars, segir að henni þyki eðlilegt að Gunnar fái vinnu sína sem forstöðumaður Krossins aftur.

"Við búum í samfélagi þar sem ríkir nokkurskonar réttarkerfi. Máli Gunnars hefur verið vísað frá og því er eðlilegt að hann fái ævistarf sitt aftur," segir Jónína sem er meðlimur í óformlegum stuðningshóp Gunnars.

Gunnar í Krossinum var ásakaður um kynferðisbrot gegn sjö konum á árunum 2010 til 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×