Innlent

Stefna stúdenta kom Illuga á óvart

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Háskólanemendur láta yfirvöld ekki vaða yfir sig, segir formaður Stúdentaráðs.
Háskólanemendur láta yfirvöld ekki vaða yfir sig, segir formaður Stúdentaráðs.
Stefna Stúdentaráðs á hendur ríkisins og Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna breytinga á útlánareglum sjóðsins verður þingfest á morgun.

Að sögn Maríu Rutar Kristinsdóttur, formanns Stúdentaráðs, fær málið flýtimeðferð fyrir dómstólum. "Þannig að það kemur vonandi í ljós í ágúst hvort komið verður til móts við okkur," segir hún. Hún segir að ekki hafi verið litið við niðurskurðartillögum þeirra og þau hafi alls staðar komið að lokuðum dyrum og því sé þetta eina færa leiðin.

"Þetta kemur mér nokkuð á óvart," segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. "Þau virðast vera að kæra að gerð sé sama krafa um námsframvindu til þeirra eins og gerð er til stúdenta á hinum Norðurlöndunum og gerð var til stúdenta hér á landi til ársins 2008."

Hann bendir á að komið hafi verið til móts við Stúdentaráð þannig að litið verður til námsársins í stað námsmisseris þegar árangur er metinn, hertar kröfur muni ekki ná til nemenda sem búi við sérstakar aðstæður og einnig að sérstakt tillit verði tekið til þeirra sem eru að ljúka námi.

Illugi ítrekar að breytingarnar geri ráð fyrir að námslánin hækki. "Stúdentunum var boðið að fresta þessari breytingu, það er að segja þessum auknu kröfum og hækkuninni. Þeir höfnuðu því. Það segir svolítið til um hvernig þeir meta stöðuna. Þeir telja það greinilega mikilvægt að hækkunin nái fram að ganga og skil ég það vel," segir menntamálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×