Fótbolti

Kata er hinn fullkomni fyrirliði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
fjórir fyrirliðar Elísa, Guðbjörg, Dóra María og Sif eru allar í ábyrgðarstöðum í sínum félagsliðum.
fjórir fyrirliðar Elísa, Guðbjörg, Dóra María og Sif eru allar í ábyrgðarstöðum í sínum félagsliðum. fréttablaðið/óskaró
Katrín Jónsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir eru fyrirliðar íslenska kvennalandsliðsins sem nú stendur í stórræðum á EM í Svíþjóð. Það leynast líka fleiri fyrirliðar í hópnum því fjórir leikmanna íslenska landsliðsins eru fyrirliðar sinna félagsliða.

Fréttablaðið hitti fyrirliðana fjóra og spurði út í fyrirliðastarfið.

Tvær þeirra eru fyrirliðar hjá atvinnumannaliðum (Guðbjörg Gunnarsdóttir og Sif Atladóttir) en hinar tvær (Dóra María Lárusdóttir og Elísa Viðarsdóttir) eru fyrirliðar liða sinna í Pepsi-deildinni.

„Ég hef kannski ákveðinn karakter sem leiðir liðið áfram með öskrum eða baráttu,“ segir Sif, fyrirliði Kristianstad, en „undirmenn“ hennar þar eru til að mynda tveir sænskir landsliðsmenn og einn danskur, auk Margrétar Láru Viðarsdóttur og Guðnýjar Bjarkar Óðinsdóttur.

„Rakel Logadóttir er alltaf svo mikið meidd þannig að þetta er mitt hlutverk hjá Val. Það þarf að vera einhver í liðinu sem nær til allra og fólk treystir. Ég er kannski ekki mikill öskrari en stelpurnar geta leitað til mín,“ segir Dóra María, sem er hjá Val.

Ég skil alla í liðinu

„Kannski eru töluð fleiri tungumál núna en oft áður og það hentar vel að ég tala sænsku, ensku og norsku. Ég skil allavega alla í liðinu,“ sagði Guðbjörg, sem fékk fyrirliðabandið á arminn í fyrsta leik sínum með Avaldsnes í norsku úrvalsdeildinni.

„Við erum með ungt lið í Eyjum og ég er kannski ein af þeim sem eru búnar að vera hvað lengst. Ég er fæddur og uppalinn Eyjamaður og það er flott að hafa Eyjamann í þessu hlutverki,“ sagði Elísa Viðarsdóttir en þrátt fyrir að vera bara 22 ára hefur hún verið fyrirliði ÍBV í þrjú ár.

„Þetta ýtir manni kannski út í það að taka virkilega meiri ábyrgð en ég veit samt ekki hvort þetta breytir miklu fyrir mig því markvörðurinn er vanur að stjórna vörninni,“ segir Guðbjörg.

„Ég er kannski meðvitaðri um það að ég sé fyrirmynd og megi ekki gera neina vitleysu,“ segir Dóra María í léttum tón.

„Ég er í þessari stöðu af því að ég er leikmaðurinn sem ég er og þetta breytir mér held ég ekki mikið. Það fylgir þessu samt að hugsa meira um heildina og allan hópinn. Maður er kannski að hjálpa þeim yngri meira og grípur inn í þegar það kemur einhver ágreiningur upp,“ segir Sif. Dóra María skýtur þá inn í: „Svo má ekki gleyma því að maður er á stífum aukaæfingum í að æfa uppköstin,“ segir Dóra og allur hópurinn hlær en fyrirliðar hittast alltaf hjá dómara leiksins fyrir leik.

Geislar af Kötu sem fyrirliða

Þær hrósa allar fyrirliða íslenska landsliðsins, Katrínu Jónsdóttur, sem hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin sex ár.

„Kata er frábær leiðtogi og hún hefur sýnt það og sannað í gegnum árin. Hún er fyrst og fremst leiðtogi inni á vellinum. Við lítum allar upp til hennar,“ segir Sif um Katrínu.

„Kata er hinn fullkomni fyrirliði. Hún er yfirveguð þegar þess þarf, mjög diplómatísk í öllum sínum aðgerðum og mikill leiðtogi,“ bætir Dóra við.

„Ég er sammála stelpunum. Það geislar af Kötu sem fyrirliða. Hún mun aldrei gefast upp og dregur liðið með sér,“ segir Guðbjörg en Elísa hefur kannski minnsta reynslu af Katrínu.

„Allan tímann sem ég hef verið með hópnum þá hef ég litið mikið upp til Kötu. Hún er frábær fyrirliði eins og stelpurnar segja,“ sagði Elísa.

Sara Björk Gunnarsdóttir hefur einnig borið fyrirliðabandið í nokkrum leikjum hjá LdB FC Malmö á þessu tímabili eða þegar fyrirliðinn Malin Levenstad er ekki með. Katrín Jónsdóttir er á sínu fyrsta ári hjá Umeå og lék áður með Djurgården. Hún var fyrirliði Valsliðsins í mörg ár áður en hún fór aftur út í atvinnumennsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×