Fótbolti

Á bara eftir spila sem miðvörður og markvörður

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Dóra María á æfingu landsliðsins í gær.
Dóra María á æfingu landsliðsins í gær. fréttablaðið/óskaró
Dóra María Lárusdóttir spilaði sinn 91. landsleik í jafnteflinu á móti Noregi í fyrsta leik Íslands á EM og var ein af þeim sem voru búnar að bíða hvað lengst eftir þessum tímamótum.

„Það var mikilvægt að ná loksins stigi á stórmóti. Mér skilst að ég sé að nálgast hundrað leiki, þannig að það var mjög kærkomið að ná þessu stigi,“ sagði Dóra María. En hvað finnst henni um að vera að spila úti um allan völl með landsliðinu?

„Ég bíð bara eftir kallinu í miðvörðinn eða markið. Það er það eina sem ég á eftir að spila með landsliðinu, held ég. Ég er ánægð með að fá að spila og mér finnst hafa gengið ágætlega í bakverðinum. Ég er ekki búin að spila hann mikið en þetta eru samt orðnir einhverjir fjórir til fimm leikir. Auðvitað er óskastaðan framar á vellinum en ég sætti mig alveg við þetta,“ segir Dóra María.

Íslenska liðið tók öll völd á vellinum í seinni hálfleiknum og þá kom sér vel að hafa Dóru Maríu í hægri bakverðinum. „Það gaf mér færi á að fara framar nokkrum sinnum en ég hefði kannski viljað gera meira af því,“ sagði Dóra.

Það var afar áberandi í Noregsleiknum að Dóra María var ekki mikið að hreinsa boltann fram þrátt fyrir pressu frá norsku sóknarmönnunum. „Mér líður vel með boltann og vil reyna að finna samherjana. Það er ekki nema undir mikilli pressu að ég hendi í eina sprengju,“ segir Dóra María í léttum tón.

„Ég hef ekki mikla tilfinningu fyrir því hvar hann ætlar að nota mig en hann mun örugglega rótera liðinu eitthvað enda erum við með marga fríska fætur á bekknum. Ég á von á því að það verði jafnvel einhverjar breytingar. Við erum með tvö jöfn lið, byrjunarlið og svo þær sem bíða á bekknum. Við höfum að vera að spila innbyrðis á æfingum og það eru jafnir leikir,“ segir Dóra María.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×