Fótbolti

Eitt stig væri enginn heimsendir

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Sigurður Ragnar með Söru Björk Gunnarsdóttur á blaðamannafundinum í gær.
Sigurður Ragnar með Söru Björk Gunnarsdóttur á blaðamannafundinum í gær. Mynd/ÓskarÓ
Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari segir það greinilegt á æfingum liðsins að það ætla margar sér að vera í hópi þeirra ellefu sem byrja á móti Noregi í kvöld.

„Það er eftirvænting í hópnum og við sáum það á æfingunni í gær þar sem það var hart barist og vel tekið á því. Þær vilja allar vera í liðinu,“ segir Sigurður Ragnar. Íslenska liðið hefur tapað sex af sjö leikjum ársins og hefur mátt þola meiri gagnrýni en áður. Sigurður Ragnar gerir sér fulla grein fyrir því að liðið hefur valdið mörgum vonbrigðum.

„Fólk er farið að gera miklar kröfur til liðsins og hefur kannski ekki mikla þolinmæði fyrir því ef við náum ekki árangri á hverju ári og erum alltaf að bæta okkur. Þetta ár hefur verið eitt skref til baka frá því sem hefur verið undanfarin ár. Við höfum fengið gagnrýni og það er þroskandi ef maður tekur rétt á henni og reynir að gera betur. Það höfum við gert sem hópur og gagnrýni verður maður að svara inni á vellinum,“ segir Sigurður Ragnar.

En má líta á þennan leik í kvöld sem úrslitaleik? „Það eru þrír leikir í riðlinum og það getur allt gerst en þetta er gríðarlega mikilvægur leikur. Það að ná að byrja mótið vel og ég tala ekki um að ná í þrjú stig. Þá værum við komin í mjög góða stöðu. Eitt stig væri ekki heimsendir en núll stig væri mjög, mjög slæmt. Þessi leikur er gríðarlega mikilvægur,“ sagði Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×