Fótbolti

Hef beðið eftir þessum leik í fjögur ár

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Það var létt yfir leikmönnum íslenska landsliðsins á hótelinu í gær. Hér eru Katrín Ómarsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir að fara yfir málin eftir spennandi borðtennisviðureign.
Það var létt yfir leikmönnum íslenska landsliðsins á hótelinu í gær. Hér eru Katrín Ómarsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir að fara yfir málin eftir spennandi borðtennisviðureign. fréttablaðið/óskarÓ
Þær eru reynslunni ríkari frá því í Finnlandi fyrir fjórum árum og í hefndarhug eftir ósanngjarnt tap í síðasta leik á móti Noregi. Stelpurnar okkar hefja leik á EM í Svíþjóð í kvöld og nú á spennustigið að vera rétt.

Landsliðsfyrirliðinn Katrín Jónsdóttir, markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir og landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson sjá mikinn mun á íslenska liðinu frá því á fyrsta Evrópumótinu árið 2009.

„Það var frábær upplifun að hafa fengið að fara á það mót. Við erum íþróttamenn og við setjum ákveðnar kröfur á okkur sjálfar. Við viljum fá aðeins meira út úr þessu móti en bara ánægjuna af því að fá að vera með. Við ætlum okkur að fara upp úr riðlinum, það er yfirlýst markmið okkar og við erum ekkert hræddar við að sýna það og segja,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir. Hún náði ekki að skora á EM í Finnlandi en er nú laus við meiðslin og tilbúin í slaginn.

Bara venjulegur fótboltaleikur

Katrín Jónsdóttir fyrirliði rifjar upp stressið sem var erfiður andstæðingur þegar liðið steig sín fyrstu spor á stórmóti. „Við vorum margar svolítið stressaðar fyrir fyrsta leikinn og það var hátt spennustig í liðinu. Það er rosalega gott að svona margar í liðinu hafa upplifað þetta áður og geta um leið miðlað þeirri reynslu til hinna. Þótt þetta sé rosalega stórt mót og miklir leikir þá er þetta samt sem áður bara venjulegur fótboltaleikur. Maður má ekki láta það draga orku frá sér heldur nýta alla orkuna í fótboltann inni á vellinum,“ segir Katrín.

Margrét Lára efast ekki um að íslenska liðið sé betra í dag. „Það er rosalega mikill munur. Þá vorum við að koma á okkar fyrsta stórmót og nánast enginn leikmaður liðsins hafði reynslu af því að spila erlendis. Núna erum við allar reynslunni ríkari þegar við spilum á þessum háa standard sem er spilaður erlendis. Ég tel okkur vera með mikið betri leikmenn og betra lið,“ segir hún og bætir við:

„Það var svolítið spennufall að komast inn á mótið fyrir fjórum árum en núna finnst mér rosaleg yfirvegun í hópnum. Þetta er bara eins og hver annar landsleikur þó að við séum að fara inn á stórmót á morgun. Gæsahúðin og þjóðarstoltið eru alltaf til staðar en þetta er bara eins og hver annar leikur. Það er nefnilega mjög mikilvægt að við höldum spennustiginu réttu,“ sagði Margrét Lára.

Mun nota fleiri leikmenn

Landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson valdi marga leikmenn í hópinn núna sem voru með á EM 2009. „Við höfum þrettán leikmenn sem voru með í Finnlandi fyrir fjórum árum. Þær hafa reynsluna og það er ekki alveg eins mikið stress hjá þeim,“ segir Sigurður Ragnar og hann viðurkennir að það sé erfiðara að velja byrjunarliðið núna en fyrir fjórum árum.

„Já, ég held það. Fyrir síðasta mót þá vorum við nánast búnir að velja byrjunarliðið í fyrsta undirbúningsleik á árinu og keyrðum á því liði alla undirbúningsleikina og síðan í mótinu. Þetta er öðruvísi núna því við munum sjá fleiri leikmenn taka þátt í þessum leikjum. Ég mun spila á aðeins fleiri leikmönnum því við höfum meiri breidd. Við höfum þróað leik okkar mikið áfram sóknarlega síðan þá. Við spiluðum fyrst og fremst mjög þétta vörn í mótinu síðast og gátum lítið fram á við í því móti,“ segir Sigurður Ragnar.

Hefur beðið í fjögur ár

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði strax á sjöundu mínútu í fyrsta leik á EM 2009 en íslensku stelpunum tókst ekki að bæta við marki þær 263 mínútur sem eftir lifðu af mótinu.

„Ég er nánast búin að vera að bíða eftir þessari keppni frá því á síðasta leik á EM 2009. Vonandi náum við að skora meira en eitt mark í þessari keppni. Ég er viss um að við náum að skapa okkur einhver færi. Það er bara að nýta þau,“ sagði Hólmfríður og það er hægt að taka undir þau orð.

Við erum betri í öllum stöðum

Ísland tapaði 1-2 á móti Noregi þegar liðin mættust síðast. Norðmenn voru þá á heimavelli í úrslitaleik um sigurinn í riðlinum. Íslenska liðið spilaði vel í leiknum og átti skilið að fá eitthvað út úr honum en tapið þýddi að íslenska liðið þurfti að fara á EM í gegnum umspilið.

„Það var svolítið skrítinn leikur. Við vorum að spila fínan bolta og mér fannst við betri en Norðmennirnir í þeim leik. Þær voru klókar, beittu skyndisóknum og notuðu þau svæði sem opnuðust þegar við vorum að sækja. Það er alltaf hættulegt,“ segir Margrét Lára sem skoraði mark íslenska liðsins.

„Við eigum að þekkja norska liðið og við teljum okkur alveg geta unnið þær. Við teljum okkur vera með betri leikmenn í öllum stöðum en við þurfum bara að sýna það inni á vellinum,“ sagði Margrét Lára full sjálfstrausts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×