Innlent

Líklegra að feður flengi börnin sín

Í nýrri rannsókn kemur fram að feður eru líklegri til að refsa sonum sínum og mæður líklegri til að refsa dætrum.
Í nýrri rannsókn kemur fram að feður eru líklegri til að refsa sonum sínum og mæður líklegri til að refsa dætrum. nordicphotos/getty Images

Líkamlegum refsingum barna var marktækt minna beitt hér á landi eftir 1980 samkvæmt niðurstöðu nýrrar rannsóknar sem gerð var hér á landi.

Fjallað var um rannsóknina sem gerð var af Geir Gunnlaugssyni landlækni og Jónínu Einarsdóttur mannfræðingi í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Þar kemur fram að markmið rannsóknarinnar hafi verið að skoða reynslu fullorðinna Íslendinga af líkamlegu ofbeldi í æsku, meta umfang hennar, réttlætingu þolenda og áhrif á mat og uppeldi.

Alls tóku 977 einstaklingar eldri en 18 ára þátt í rannsókninni, af 1500 manna slembiúrtaki úr þjóðskrá. Þeir voru spurðir í símtali um mat á uppeldi sínu, reynslu af fimm tilteknum formum líkamlegra refsinga og umfang þeirra. Af 968 svarendum mátu 810 að uppeldi þeirra hafi verið gott.

Alls sögðu 465 þátttakendur frá bernskureynslu af að minnsta kosti einu formi líkamlegra refsinga og voru flengingar algengastar. Næstalgengasta form líkamlegra refsinga var kinnhestur og hristingar. Þeir sem voru 30 ára og eldri höfðu oftar reynslu af kinnhesti. Alls 27 svarendur sögðu frá öðrum formum líkamlegra refsinga en þeim sem sérstaklega var spurt um. Dæmi um refsingar voru að hafa verið ýtt, hrint, fengið spark í sig, munnur sápuþveginn, köld sturta, drekkingarathafnir eða að vera barinn með áhöldum, til dæmis herðatré, skóflu eða belti.

Faðir var gerandi hjá 155 svarendum, móðir hjá 142, bæði faðir og móðir hjá 106 og aðrir fullorðnir forsjáraðilar hjá 31. Feður voru samkvæmt rannsókninni líklegri til að hafa beitt syni sína líkamlegum refsingum en dætur og mæður refsuðu dætrum sínum oftar en sonum. Feður voru rúmlega tvisvar sinnum líklegri til að flengja börn sín en mæður. Mæður refsuðu oftar en feður með því að gefa kinnhest og slá á fingur.

Ekki var marktækur munur samkvæmt rannsókninni á því hvort foreldri hristi börn sín oftar. Þeim sem var refsað oft töldu frekar að refsingin hafi aldrei verið réttlætanleg og voru líklegri til að telja uppeldi sitt hafa verið slæmt eða ásættanlegt borið saman við þá sem höfðu enga slíka reynslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×