Innlent

Náttúruperlur í hættu bregðist ríkisstjórnin ekki strax við

Arnheiður Jóhannsdóttir
Arnheiður Jóhannsdóttir

Stjórnvöld verða að bregðast strax við vaxandi fjölgun ferðamanna hér á landi og hefja vinnu nú þegar við að útfæra gjaldtöku meðal þeirra til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu á vinsælum ferðamannastöðum.

Þetta kom fram í ályktun aðalfundar Markaðsstofu Norðurlands sem var birt á fimmtudag. Þar er skorað á nýju ríkisstjórnina að bregðast við yfirvofandi hættu á óafturkræfum náttúruspjöllum sem steðjar að fjölförnum ferðmannastöðum.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir almenna sátt ríkja innan ferðaþjónustunnar um að koma af stað miðlægri gjaldtöku með einhvers konar „náttúrupassa“ frekar en að taka gjald af ferðamönnum þegar þeir skoða hverja náttúruperlu fyrir sig.

„Það er búið að tala um náttúrupassa í nokkur ár, þar sem verið er að hugsa um miðlæga gjaldtöku sem yrði rukkuð inn,“ segir hún. „Þá munu ferðamenn sem koma til landsins borga einhverja þúsundkalla sem færu í sameiginlegan sjóð sem nýttist til uppbyggingar á ferðamannastöðum.“

Að mati Arnheiðar ætti að rukka alla ferðamenn sem koma til landsins, hvort sem þeir eru að koma í helgarferð til Reykjavíkur eða hringferð um landið. Nánari útfærsla á rukkun gjaldsins er ekki komin á hreint, en verður rædd á næstunni. Að sögn Arndísar eru fordæmi fyrir náttúrupössum erlendis, til dæmis á Galapagoseyjum og vissum svæðum Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×