Innlent

Fagnar endurskoðun veiðigjalds

Adolf Guðmundsson Sér fyrir sér að meira samráð verði haft við ákvarðanatöku um málefni sjávarútvegsins. fréttablaðið/gva
Adolf Guðmundsson Sér fyrir sér að meira samráð verði haft við ákvarðanatöku um málefni sjávarútvegsins. fréttablaðið/gva

„Það liggur fyrir að ný ríkisstjórn ætlar sér að skoða álagningu veiðigjaldanna á sjávarútveginn. Það virðast uppi hugmyndir um fast gjald sem allir borga og því til viðbótar að reikna gjald til viðbótar niður á hvert fyrirtæki.

Ég fagna því að þetta verði endurskoðað, því núna er meðaltalsálagning sem kemur mjög illa við lítil og meðalstór fyrirtæki,“ segir Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) um stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar. Adolf vonar að ný ríkisstjórn standi við fyrirheit um samtal við atvinnugreinina um málefni sem hana snerta beint og óbeint.

Það hafi brugðist að hans mati í tíð fráfarandi ríkisstjórnar með átökum sem öllum eru kunn. Ekki er annað að merkja en að ríkisstjórnin sjái framhaldið í líku ljósi og Adolf. Í viðtali við Fréttablaðið segir Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr sjávarútvegsráðherra, að leitast verði við að ná sem víðtækastri sátt um atvinnugreinina. Samráð verði aukið verulega. „Við leggjum áherslu á víðtækt samráð við sem flesta enda er sátt útilokuð ef ekki er talað saman í undanfara breytinga,“ segir Sigurður.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×