Innlent

Leiðin niður er ekki síður erfið

Fjallagarpar á göngu.
Fjallagarpar á göngu. MYND/ÍSLENSKIR FJALLALEIÐSÖGUMENN

Fjallgöngumaðurinn Ingólfur Geir Gissurarson náði þeim merka áfanga að klífa upp á topp Everest-fjallsins í gær og er lagður af stað niður fjallið aftur. Hann staldraði stutt við á toppnum. Haraldur Örn Ólafsson Everest-fari segir leiðina niður erfiða. „Leiðin niður er ekki síður erfið. Það er gríðarlega mikilvægt að menn nái að halda einbeitingunni á leiðinni niður. Nú byrjar að reyna verulega á andlegu hliðina.“

Ingólfur komst á topp Everest-fjallsins klukkan sjö í gærmorgun að staðartíma, en þá var klukkan eitt að íslenskum tíma samkvæmt heimasíðu Everest-faranna. Ferðin úr Suðurskarði og á toppinn tók liðlega átta klukkustundir.

Fjallgöngumaðurinn Leifur Örn Svavarsson, hinn Íslendingurinn sem staddur er í norðurhlíðum Everest-fjallsins, hefur enn ekki náð upp á topp. Hann áætlar að komast þangað rétt fyrir sólarupprás á morgun, þann 23. maí.

Leifur er sagður í góðu líkamlegu ástandi en hann kemur til með að ganga og sofa með súrefni hér eftir að sögn Arinbjarnar Haukssonar, starfsmanns Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Leifur mun ganga upp í 8.300 metra hæð í dag, hvíla sig í skamma stund og reyna við toppinn eldsnemma í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×