Innlent

Ekkert meirihlutasamstarf án heilinda

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sakar bæjarfultrúa Sjálfstæðisflokks um óheilindi og vill skýr svör um framhaldið.
Sakar bæjarfultrúa Sjálfstæðisflokks um óheilindi og vill skýr svör um framhaldið.

„Það segir sig sjálft að ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að starfa af heilindum í þessum meirihluta þá er náttúrlega enginn meirihluti,“ segir Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks í Kópavogi.

Fjórir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks mynduðu í fyrra nýjan meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs með fulltrúa Y-listans og fulltrúa Framsóknarflokksins. Að sögn Ómars fóru sjálfstæðismennirnir Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri, og Aðalsteinn Jónsson á síðasta bæjarstjórnarfundi óvænt gegn stefnu sem meirihlutinn hafði ákveðið varðandi afgreiðslu nýs aðalskipulags.

„Það eru ekki heilindi í meirihlutasamstarfinu af hendi Sjálfstæðisflokksins. Gunnar Birgisson og Aðalsteinn Jónsson eru ekki að standa við það sem þeir eru að segja. Það er fáheyrt því miðað við þá reynslu sem ég hef haft af meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn þá hefur Gunnar aldrei sagt eitt en gert síðan annað.

Það verður að koma svar við því hvort menn ætli að halda áfram að vinna svona eða koma fram af heilindum,“ segir Ómar. Rannveig Ásgeirsdóttir, bæjarfulltrúi Y-listans, er ósátt.

„Það er með ólíkindum að ítrekað skulum við standa frammi fyrir því að sami bæjarfulltrúi gangi gegn eigin meirihluta og ekki síst gegn sínu eigin fólki úr eigin flokki,“ segir Rannveig og vísar til framgöngu Gunnars I. Birgissonar. Hún segir bæjarbúa eiga skilið heiðarleg og góð vinnubrögð af hálfu allra bæjarfulltrúa. „Því gengur þetta upphlaup algerlega í berhögg við það hvernig meirihlutinn vill og hefur starfað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×