Innlent

Vegur um Gálgahraun þrátt fyrir deilur

Andri Snær Magnason
Andri Snær Magnason

Ekki verður horfið frá áformum um lagningu nýs Álftanesvegar í gegnum Gálgahraun. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vegagerðarinnar sem Ögmundur Jónasson kallaði eftir í mars. Andri Snær Magnason, rithöfundur og náttúruverndarsinni, segir niðurstöðuna mikil vonbrigði.

„Ég vona að bæjastjórans verði minnst í sögunni fyrir spellvirkin,“ segir Andri Snær en hann hefur verið á meðal þeirra sem mótmælt hafa lagningu vegarins. Í skýrslunni kemur fram að engar forsendur hafi breyst varðandi gerð vegarins frá fyrra umhverfismati. Öll tilskilin leyfi séu fyrir hendi og hafi framkvæmdin verið úrskurðuð lögmæt og gild.

Andri segir Vegagerðina óhæfa í að stunda vegagerð á höfuðborgarsvæðinu. „Það hefur sýnt sig að Vegagerðin vinnur ekki með höfuðborgarsvæðið sem heild, heldur eftir einhverri mjög absúrd hugmyndafræði um borgarbyggð,“ segir hann og bendir jafnframt á að áform Garðabæjar um fjölgun íbúa á svæðinu hafi ekki gengið eftir. Það sé því mjög óraunhæft „bruðl“ að ráðast í breytingarnar.

„Það er ekki forsvaralegt að eyða opinberu fé með þessum hætti. Helstu rökin hafa verið skaðabótaréttur íbúa, sem eru fáir og búa við fáfarna umferðargötu með fallegt hraun allt um kring. Ef þau eiga rétt á skaðabótum, hvað þá með hina íbúa höfuðborgarsvæðisins sem búa við þunga umferð?“- mlþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×