Innlent

Lífshættulegt fyrir börn að sofa uppi í

Mikilvægt er að setja ungabörn strax aftur í eigið rúm eftir brjóstagjöf að nóttu. Líkur á vöggudauða fimmfaldast ef barnið sefur í rúmi hjá foreldrum sínum.
Mikilvægt er að setja ungabörn strax aftur í eigið rúm eftir brjóstagjöf að nóttu. Líkur á vöggudauða fimmfaldast ef barnið sefur í rúmi hjá foreldrum sínum. Fréttablaðið/Mynd úr safni

Ungabörn sem sofa uppi í rúmi hjá foreldrum sínum eru fimm sinnum líklegri til að deyja vöggudauða samkvæmt nýrri breskri rannsókn. Sindri Valdimarsson barnalæknir segir löngu vitað að það sé stór áhættuþáttur vegna vöggudauða.

Niðurstaða nýrrar breskrar rannsóknar leiðir í ljós að ungabörn sem sofa uppi í hjá foreldrum sínum eru fimm sinnum líklegri til að deyja vöggudauða en börn sem sofa ein í rúmi. 



Hafa heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi verið hvött til þess að bregðast hratt við og endurskoða fyrri ráðleggingar sínar, og beina þeim tilmælum til foreldra að sofa aldrei með börn undir þriggja mánaða aldri uppi í rúmi hjá sér. 



Það hefur þegar verið gert í Bandaríkjunum og Hollandi. Sindri Valdimarsson, barnalæknir á Barnaspítala Hringsins, segir niðurstöðurnar ekki vera ný tíðindi. Það hafi löngu verið vitað að svefn ungbarna og foreldra í sama rúmi sé áhættuþáttur fyrir vöggudauða.

„Þetta hefur verið þekkt vel og lengi sem einn af þessum stóru áhættuþáttum fyrir vöggudauða. Þessi rannsókn ef til vill staðfestir það enn frekar og sýnir fram á einhvern ákveðinn margföldunarstuðul sem ekki hefur verið sýnt fram á áður eða að það séu sterkari tengsl en áður var talið, en þetta er vel þekkt.“

Hann nefnir að reykingar móður séu einnig stór áhættuþáttur fyrir ungbarnadauða sem og að börn séu látin sofa á maganum. Mikilvægt sé að börnin séu látin strax aftur í eigið rúm eða vöggu eftir að brjóstagjöf lýkur að nóttu til.

„Þú veist aldrei hvað þú gerir þegar þú sefur, hvernig þú leggst að barninu eða hvernig barn færir sig, þannig að það er auðvitað aldrei mælt með því að ungabörn sofi í rúmi með foreldrum sínum heldur í sínu eigin rúmi.“

Hann segir áhættuna minnka eftir því sem barnið eldist en engu að síður sé það góður siður að venja barnið við að sofa í eigin rúmi. „Það er líka góður siður upp á framhaldið og einkalífið að venja þau við eigið rúm sem fyrst.“

Núverandi leiðbeiningar í Bretlandi um aðgerðir til varnar vöggudauða kveða á um að aðeins þeir foreldrar sem reykja eða nota áfengi og/eða eiturlyf sofi ekki í sama rúmi og ungabörn þeirra.

Aðrir sérfræðingar vara við breytingum á núverandi reglum og segja að bann gæti leitt til aukins vöggudauða þar sem foreldrar væru þá líklegri til að sofna þar sem þeir væru að sinna barni í sófa eða stól sem mun vera enn varasamara en að sofa með barninu í rúmi.

Sindri Valdimarsson barnalæknir segir löngu vitað að þetta sé stór áhættuþáttur vegna vöggudauða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×