Innlent

Kvennaathvarfið verðlaunað

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Elsa Yeoman, forseti borgarstjórnar, ásamt Sigþrúði Guðmundsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins, sem tók við verðlaununum.
Elsa Yeoman, forseti borgarstjórnar, ásamt Sigþrúði Guðmundsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins, sem tók við verðlaununum.

„Það sem stendur upp úr er gleði og þakklæti,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf. Samtökin fengu afhent Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar í gær við hátíðlega athöfn í Höfða á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar. „Það er frábær tilfinning að upplifa að borgaryfirvöld horfi á þennan málaflokk og standi við bakið á þeim grundvallarmannréttindum sem eru að búa við öruggt heimili,“ segir Sigþrúður.

Samtök um kvennaathvarf voru stofnuð árið 1982, og hafa því verið starfrækt í rúm 30 ár. Í upphafi voru úrtöluraddir sem sögðu ekki vera þörf á slíkri þjónustu hérlendis, annað kom þó á daginn og hafa þrjú þúsund og fjögur hundruð konur dvalið í Kvennaathvarfinu, margar þeirra með börn. „Þetta er löng saga og það eru margir sem hafa komið að þessu með okkur og það eru ekki síst konurnar sjálfar sem hafa kennt okkur hvernig reka á kvennaathvarf. Þær eru það mikilvægasta í þessu öllu saman,“ segir Sigþrúður.

Mannréttindaverðlaunin eru veitt árlega einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×