Innlent

Hverfisgata verði búlevarður

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Fyrirhugaðar breytingar í miðbænum mæltust vel fyrir hjá flestum. Hópur verslunareigenda lét þó í ljós óánægju sína með samráðsleysi og Laugaveginn sem göngugötu.
Fyrirhugaðar breytingar í miðbænum mæltust vel fyrir hjá flestum. Hópur verslunareigenda lét þó í ljós óánægju sína með samráðsleysi og Laugaveginn sem göngugötu.

Margir mættu á upplýsinga- og samráðsfund um fyrirhugaðar framkvæmdir í miðborginni, sem haldinn var í Tjarnarbíói í gær.

Meðal annars stendur til að bæta Hverfisgötu og gera að breiðgötu eða „boulevard“ eins og fram kom á fundinum.

Deilur hafa sprottið vegna framkvæmdanna, sem þykja stórtækar, og óttast ákveðinn hópur fasteigna- og verslunareigenda að framkvæmdirnar, ásamt opnun Laugavegar sem göngugötu, muni skaða rekstur þeirra. Björn Jón Bragason, formaður Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, gagnrýndi meðal annars hugmyndir um hjólreiðastíga við Hverfisgötu og sagði slíka stíga ekki hafa verið notaða.

Jón Gnarr borgarstjóri sagði eðlilegt að mæta vaxandi áhuga borgarbúa á hjólreiðum sem samgöngumáta og gaf lítið fyrir gagnrýnina.

Flestir fundargesta voru þó ánægðir með framkvæmdirnar og fundinn. Allir íbúar og verslunareigendur sem blaðamaður ræddi við eftir fundinn voru ánægðir með framhaldið.

„Við erum langflest mjög ánægð, enda blómstrar mannlífið í kringum verslanirnar á þessum tíma,“ segir Þura Hauksdóttir, eigandi Spútnik og Nostalgíu. Hörður Ágústsson, eigandi Macland, tók í sama streng og fagnaði einnig göngugötunni.

Á vef Reykjavíkurborgar má kynna sér efni fundarins nánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×