Innlent

Í skugga Guðmundar og Geirfinns

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Rúnar Guðbrandsson
Rúnar Guðbrandsson Fréttablaðið/Vilhelm
Hvörf eru nýtt íslenskt leikverk sem frumsýnt var í Kúlunni í gærkvöld. Leikstjóri verksins og einn höfunda er Rúnar Guðbrandsson, sem fékk hugmyndina eftir samskipti við Sævar Ciesielski fyrir nítján árum. Verkið hefur tekið miklum breytingum á meðgöngunn

Gamla dómshúsið við Lindargötu hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Það var á sínum mektardögum vettvangur stærsta dómsmorðs sem framið hefur verið í Íslandssögunni en nú er það æfingasvæði leikhópsins Lab-Loka sem endurgerir söguna af Guðmundar- og Geirfinnsmálinu á sinn hátt undir leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar, sem gengið hefur með söguna og útfærslu hennar í nítján ár. Málið hafði reyndar verið honum hugleikið alveg frá því að atburðirnir gerðust en það var ekki fyrr en hann kynntist Sævari Ciesielski, þá nýsloppnum úr fangelsi, að hann varð sannfærður um að hann yrði að gera leikrit upp úr málsatvikum.

„Árið 1994 setti ég upp Og þeir settu handjárn á blómin eftir Arrabal hjá Leiksmiðju Reykjavíkur. Verkið er fangelsisdrama og á æfingatímanum rakst ég á Sævar og spurði hvort hann vildi koma og deila reynslu sinni af einangrunarvist með leikhópnum. Hann tók vel í það, mætti og fór á þvílíkt flug. Það var bara eins og hann væri sérfræðingur í Arrabal, hann var svo fljótur að setja sig inn í allt og sagði okkur frá svo mörgu sem hann hafði lent í. Þá kviknaði þessi hugmynd að leikverki. Ég tók upp nokkur myndbönd af Sævari og mótaði hugmyndina í grófum dráttum en svo fór þetta bara í pækil. Ég bjó í fimm ár í Bretlandi og var að vinna að allt öðrum hlutum, en þetta mál var alltaf aftast í höfðinu, enda hefur það náttúrulega fylgt manni alla tíð. Þessir krakkar sem voru sakborningar voru því sem næst jafnaldrar mínir og ég kannaðist við þau úr bænum. Maður upplifði þetta svo sterkt á sínum tíma þótt maður vissi þá ekkert hvað sneri upp eða niður í málinu. Ég bara gat ekki losnað við þetta úr huganum.“

Þúsundir blaðsíðna

Rúnar bjó erlendis á meðan dómsmálið sjálft stóð yfir og kynntist þar meðal annars Guðjóni Skarphéðinssyni, einum sakborninga. Þegar hann kom heim fór hann að vinna á Landsbókasafninu, lagðist í lestur á dómskjölum og áhuginn blossaði upp aftur. Fyrir tveimur árum fór hann fyrir alvöru að vinna að gerð leikverksins Hvörf og í fyrrasumar lagði hann ásamt Stefáni Halli Stefánssyni leikara undir sig herbergi dómara í gamla dómshúsinu, sem nú er yfirfullt af gögnum um málið og veggirnir þaktir tímalínum og útfærslum á málsatvikum og hinum ýmsu samsæriskenningum. „Við byrjuðum á því að lesa allar skýrslurnar og málskjölin, tuttugu og sex bækur, síðan kemur dómurinn upp á 627 blaðsíður og svo öll málsskjölin úr endurupptökunni. Þetta eru þúsundir blaðsíðna.“

Nálgun Rúnars og Stefáns Halls er óvenjuleg að því leyti að það sem þeir reyndu fyrst og fremst að gera sér grein fyrir var hvað vakti fyrir rannsóknarmönnum málsins. „Þegar við fórum að vinna þessa systematísku rannsóknarvinnu breyttust allar mínar hugmyndir um þetta verk. Ég hafði hugsað mér eitthvert fangelsisdrama, sálfræðilegar afleiðingar einangrunar og svona en við lesturinn fór ég að fá miklu meiri áhuga á rannsóknaraðilunum. Hver var þeirra ásetningur og hvað knúði þá áfram? Og hvernig gat þetta eiginlega gerst? Dómurinn er alfarið byggður á játningum sem margoft voru dregnar til baka og breyttust endalaust. Það liggur ekki einu sinni fyrir að morð hafi verið framin. Það eru engin lífsýni, engin tengsl, engin mótív, þetta er allt eins og samsærisplott í bíómynd. Eða mörgum bíómyndum, réttara sagt, það eru svo margar útgáfur af því sem á að hafa gerst. Okkar tök á þessu máli má eiginlega súmmera upp í spurningunni: Hvað gerist þegar lögreglumenn ætla að gerast skáld?“

Hefðu getað verið Jón og Gunna

Rúnar segist ekki vera að fella neinn dóm um sekt eða sakleysi í verkinu, en það sé þó augljóst að málsatvik geti alls ekki hafa verið þau sem greint er frá í dómnum. „Þetta er enn óleyst gáta, eitt stærsta sakamál Íslandssögunnar sem í voru felldir þyngstu dómar á lýðveldistímanum. Það er það sem gerir þetta svo spennandi að kafa í.“

Ein leikkonan er dóttir eins hinna grunuðu í málinu, er það ekkert skrítin staða? „Alls ekki. Það sýnir bara hvað þetta mál snerti marga í þjóðfélaginu, það var alls konar fólk sem dróst inn í þetta. En það er rétt að undirstrika það að þetta verk er skáldskapur. Allir karlkyns sakborningarnir heita Jón og stúlkan heitir Guðrún til að draga fram þá staðreynd að það hefðu hvaða Jón og Gunna í samfélaginu getað lent í þessu. Við erum ekkert að reyna að elta veruleikann beint, enda er hann mjög loðinn í þessu máli, en þó er nánast allt sem fólk tekur sér í munn tekið beint upp úr skýrslum og staðreyndum er haldið til haga. Engu að síður er þetta leikhús sem lýtur sínum eigin lögmálum og þetta eru allt leikpersónur.“

Að deyja úr sviðsskrekk

Rúnar ber öll einkenni heltekins manns, hann er nánast óstöðvandi í útskýringum og bollaleggingum um þennan tíma, þetta mál og tíðarandann. Enda kemur í ljós að fyrsta sagan sem hann skrifaði um málið er jafngömul því. „Ég var í menntaskóla þegar þetta gerðist og í einum íslenskutímanum fengum við það verkefni að skrifa ritgerð sem héti Mannshvarf í Keflavík. Ég gekk þá með skáld í maganum og skrifaði ægilega smarta smásögu sem gekk út á það að maðurinn hefði bara forðað sér af skerinu og sæti í vellystingum einhvers staðar í Suður-Ameríku.“

Gekkst með skáld í maganum þá? Er það horfið? „Það varð nú bara einhvers konar leikskáld á endanum. Leiklistin varð ofan á og strax eftir menntaskóla kom ég mér til Kaupmannahafnar og fór fljótlega að starfa með framsæknum leikhópum þeirra ára þar. Ætlaði reyndar fyrst að verða leikari en komst svo að því að þótt mér fyndist æfingaferlið og líkamlega þjálfunin skemmtileg þá fékk ég ekkert út úr því að standa á sviði. Er of mikill perfeksjónisti og var alltaf að rífa mig niður, fannst ég ómögulegur og var að deyja úr sviðsskrekk. Þannig að smátt og smátt þróaðist ég yfir í leikstjórn og kennslu sem ég hef unnið við meira og minna allar götur síðan. Ég vann auðvitað eitthvað annað meðfram leiklistinni lengi framan af, fór á sjóinn á meðan ég nennti því, kenndi í grunn- og framhaldsskólum og fleira en tengslin við leikhúsið rofnuðu aldrei, það var alltaf númer eitt.“

Eftir að hafa verið það sem hann sjálfur kallar „farandleikstjóri“ árum saman tók Rúnar sig upp árið sem hann varð fertugur og hélt til Englands í mastersnám í leikstjórn og leiklistarfræðum. „Ætlaði fyrst bara að taka masterinn en hélt svo áfram og tók M.Phil./Ph.D. – eins og Sigmundur Davíð fór í – sem er svona lengri leiðin að doktorsnáminu. Nokkrum árum áður en ég fór hafði ég ásamt öðrum stofnað leikhópinn Lab-Loka sem átti eiginlega aðallega að vera nokkurs konar endurmenntunarhópur fyrir leikara með áherslu á líkamlegu tjáninguna, en við vorum svo beðin að setja upp sýningar hér og þar og þetta vatt smám saman upp á sig. Lab-Loki lifði áfram góðu lífi þessi fimm ár sem ég var í Englandi og við settum upp ýmsar sýningar þar, oftast í samvinnu við háskólaleikhópa.“

Aftur á þrítugsaldurinn

Ástæðan fyrir því að Rúnar sneri heim frá Englandi var að honum var boðin staða við nýstofnaða leiklistardeild LHÍ og varð í kjölfarið fyrsti prófessorinn í leiktúlkun við nýstofnaða leiklistardeild LHÍ. Því starfi gegndi hann í fimm ár en hefur síðan „verið að harka þetta frílans á gamals aldri“ eins og hann orðar það sjálfur.

Hann er reyndar eiginlega aftur kominn í stöðu manns á þrítugsaldri bæði í starfinu og einkalífinu því hann á líka þrjú börn undir þriggja ára aldri með sambýliskonu sinni, Birnu Hafstein leikkonu. „Já, það er svo hentugt að láta líða svona langt á milli barna, þá eru þau eldri komin á barnapíualdur,“ segir hann glottandi. „Reyndar eru börnin mín sex í allt, sú elsta tuttugu og níu ára og þær yngstu tvíburar á öðru ári. Þar á milli eru tuttugu og eins árs dóttir, nítján ára sonur og þriggja ára sonur. En ég á engin barnabörn enn þá.“

Fjölskyldan býr í Sundunum, á æskuheimili Rúnars sem faðir hans byggði og foreldrar hans fluttu inn í nokkrum mánuðum áður en hann fæddist. Birna hefur tekið þátt í öllum sýningum Lab-Loka síðan þau Rúnar kynntust og hann segir verkaskiptinguna sem þau hafa komið sér upp henta sér mjög vel. „Við rekum þetta saman. Hún er meiri framkvæmdastjóri en ég og fjármálakona, sem er ákaflega hentugt. Við erum alveg ágætis teymi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×