Innlent

Ásmundur Einar þjónar tveimur húsbændum

Heimir Már Pétursson skrifar
mynd/stefán
Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri grænna sagði á Alþingi í dag að það vekti athygli að hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar fjallaði lítið um kostnað ríkisstjórnarinnar og fjölda aðstoðarmanna ráðherra. En fjórir ráðherrar Framsóknarflokksins séu sagðir hafa 11 aðstoðarmenn.

„Svo síðan liggur fyrir að einn þeirra verður ólaunaður hvað varðar stjórnarráðið. Það er að segja Alþingi á að greiða launakostnað nýjasta eða næst nýjasta aðstoðarmanns Framsóknarflokksins,“ sagði Steingrímur og vísaði þar með til ráðningar Ásmundar Einars Daðasonar alþingismanns og formanns hagræðingarhópsins í stöðu aðstoðarmanns forsætisráðherra.

Þetta vekti spurningar um stjórnskipuleg mörk löggjafrvaldins og framkvæmdavaldsins. Starf aðstoðarmanna væri skilgreint í lögum og hann lyti boðvaldi ráðherra.

„Það hlýtur því að þurfa að koma til skoðunar, annars vegar hvort þetta sé eðlilegt fyrirkomulag; að Alþingi greiði launakostnað aðstoðarmans upp í stjórnarráði og hins vegar,  hvort þessi verkaskipting og trúnaðarskyldur sem þarna vegast þá á, annars vegar maður sem starfar undir boðvaldi ráðherra og hins vegar maður sem er sem þingmaður bundinn sannfæringu sinni einni hér á Alþingi,“ sagði Steingrímur.

Fleiri gerðu athugasemdir við þessa ráðningu. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði hagræðingarhópinn leggja til fækkun starfa hjá hinu opinbera og skerðingar á kjörum atvinnulausra.

„Það er til skammar fyrir flokka sem leggja leggja fram 111 niðurskurðar- og hagræðingartillögur að auglýsa á sama tíma sífellda fjölgun Framsóknarmanna í starfsmannahaldi stjórnarráðsins,“ sagði Sigríður Ingibjörg.

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í hagræðingarhópnum sagði það greinilega fara illa með íhaldssömustu þingmenn að Ásmundur Einar skuli hafa verið ráðinn aðstoðarmaður forsætisráðherra án launa og gerði lítið úr athugasemdum þingmanna.

„Svo veit ég ekki alveg hvað við eigum að gera, virðulegur forseti, með þá sem íhaldssamastir hér eru, þegar kemur þessi gríðarlega róttæka breyting að hvorki meira né minna en að háttvirtur þingmaður Ásmundur Einar Daðason sé að aðstoða forsætisráðherra,“ sagði Guðlaugur Þór í hæðnistón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×