Innlent

Ráðherra getur ráðið sér fimm aðstoðarmenn

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Ráðherra getur ráðið sér að hámarki fimm aðstoðarmenn samkvæmt lögum um stjórnarráð Íslands sem tóku gildi árið 2011. Fjallað var um fjölda aðstoðarmanna ráðherra Framsóknarflokksins í Fréttablaðinu í dag. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur segir eðlilegt að ráðherrar séu með fleiri aðstoðarmenn í kjölfar sameiningar ráðuneyta.

„Ráðuneytin eru orðin stór með mörgum málaflokkum og glíma við flóknari verkefni eftir hrun. Það er ekki óeðlilegt að við slík skilyrði þurfi ráðherrar fleiri aðstoðarmenn til að sinna starfi sínu,“ segir Sigurbjörg.

Fjórir ráðherrar Framsóknarflokksins eru með ellefu aðstoðarmenn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er með fjóra aðstoðarmenn og Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er með þrjá aðstoðarmenn. Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru með sjö aðstoðarmenn. Sigurbjörg segir fjölda aðstoðarmanna efla pólitíska forystu ráðherra. Ráðningar aðstoðarmanna séu þó aðeins tímabundnar og af pólitískum toga. Aðstoðarmennirnir víki því um leið og ráðherrann fari úr embætti.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir
Þingmenn eiga ekki að starfa sem aðstoðarmenn

Sigurbjörg hefur efasemdir um að rétt sé að ráða þingmenn til aðstoðar ráðherra. Tilkynnt var um ráðningu Ásmundar Einars Daðasonar sem aðstoðarmanns forsætisráðherra í gær.

„Ég hef áhyggjur af því að þingmenn ráði sig sem aðstoðarmenn hjá framkvæmdarvaldinu. Það er nýmæli. Þingmenn ættu frekar að sinna starfi sínu með fullum krafti og einblína á rækta samband sitt við kjósendur. Það er þeirra starf. Jafnframt er hlutverk þingmanna að hafa veita framkvæmdavaldinu aðhald. Það getur reynst erfitt ef menn eru báðum megin við borðið,“ segir Sigurbjörg.

Í lögum um stjórnarráð Íslands er fjallað um fjölda aðstoðarmanna. Ný lög tóku gildi 2011:

22. gr. Ráðherrum er heimilt að ráða til starfa í ráðuneyti sínu aðstoðarmann eða aðstoðarmenn. Aðstoðarmenn sem eru ráðnir til starfa í Stjórnarráði Íslands skulu á hverjum tíma ekki vera fleiri en nemur tveimur fyrir hvern ráðherra en heimilt er samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur. Ákvæði um auglýsingaskyldu í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eiga ekki við um ráðningu aðstoðarmanna. Aðstoðarmaður ráðherra gegnir störfum fyrir ráðherra svo lengi sem ráðherra ákveður, þó ekki lengur en ráðherra sjálfur.
 



Aðstoðarmenn Framsóknarflokks:

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: Ásmundur Einar Daðason, Benedikt Árnason, Jóhannes Þ. Skúlason og Sigurður Már Jónsson

Eygló Harðardóttir: Matthías Imsland og Siv Friðleifsdóttir

Sigurður Ingi Jóhannsson: Benedikt Sigurðsson, Helga Sigurrós Valgeirsdóttir og Ingveldur Sæmundsdóttir

Gunnar Bragi Sveinsson: Margrét Gísladóttir og Sunnar Gunnars Marteinsdóttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×