Skoðun

Fræðsla barna er ekki málið

Sæunn Kjartansdóttir skrifar
Hugmyndin um að fræðsla geti varið börn fyrir kynferðisbrotamönnum er orðin býsna viðurkennd. Hún gengur út á að upplýsa börn frá unga aldri um rétt sinn til að setja mörk svo að þau geti betur staðið gegn kynferðislegri misnotkun. Hljómar vel, ekki satt?

Því miður eru ofbeldismál erfiðari viðfangs en svo, ekki síst kynferðisbrotamál. Ástæða þess að börn verða fyrir kynferðisofbeldi er ekki að þau skorti vit til að segja nei eða verja sig með öðrum hætti. Ástæðan, eins og í öllum ofbeldismálum, er að þau eru borin ofurliði. Aflsmunurinn er ekki aðeins líkamlegur heldur einnig vitsmuna- og tilfinningalegur. Þegar börn verða fyrir lævíslegri tælingu verða þau ringluð og upplifa sig hæglega samsek. Oft átta þau sig ekki á hvað gerst hefur fyrr en allt er um garð gengið.

Við þurfum að hugsa til enda þýðingu þess að ætla börnum að setja kynferðisbrotamönnum mörk. Hvað ef þeim tekst það ekki? Hvað ef þau segja ekki að þetta sé bannað? Er þetta þá þeim að kenna? Ég óttast að það sé niðurstaða sem mörg þeirra sitja uppi með.

Nístandi sektarkennd

Það er kunnara en frá þurfi að segja að ein algengasta og erfiðasta afleiðing kynferðisofbeldis er djúpstæð og nístandi sektarkennd þolenda. Þetta á við um fullorðna en þetta á enn þá frekar við um ung börn. Þau hafa engar forsendur til að sjá við blekkingum fullorðinna og hafa auk þess afar óraunhæfar hugmyndir um eigin mátt og getu. Því eru þau berskjölduð fyrir sektarkennd sem enginn fótur er fyrir en getur engu að síður kvalið þau ævina á enda.

Hvað er þá til ráða? Besta vörn gegn því að börn verði fyrir ofbeldi er að þau eigi örugg tengsl við foreldra eða aðra fullorðna sem þau geta treyst. Flest vildum að til væru einfaldari lausnir en hjá því verður ekki komist að fullorðið fólk beri ábyrgð á að gæta öryggis barna. Það þarf að hlusta á börn, veita líðan þeirra athygli og taka þau alvarlega. Barn sem býr við slíkt atlæti veit hvar mörk liggja og hvenær er farið yfir þau vegna þess að það lærir markasetningu í samskiptum við þá sem annast það. Þar með er ekki tryggt að barnið geti varið sig fyrir ofbeldi. Það er hins vegar mun líklegra til að segja frá og fá hjálp við hæfi. Því miður er staðreyndin sú að alltof mörg börn búa við fáskiptni og vanrækslu og eru misyndismönnum auðveld bráð. Það er alvarlegur og aðkallandi vandi en hann verður aðeins leystur með samstilltum aðgerðum foreldra, fagfólks, stjórnvalda og allra þeirra sem láta sig hag barna varða.




Skoðun

Sjá meira


×