Skoðun

Barnasáttmálinn

Björgvin G. Sigurðsson skrifar
Lögfesting Alþingis á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna var með mikilvægari lagagjörð þingsins um langt skeið. Tuttugu ára baráttu fyrir lögfestingu Barnasáttmálans er nú lokið. Fyrir vikið batnar réttarstaða barna á Íslandi umtalsvert.

Á enga er hallað þó þeim Ágústi Ólafi Ágústssyni, fyrrverandi þingmanni, og Helga Hjörvar þingmanni sé þökkuð sérstaklega barátta fyrir lögfestingu sáttmálans, svo og samþingmönnum mínum í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis fyrir vandaða og yfirvegaða vinnu þvert á flokka. Einhugur og stuðningur við málið skilaði því inn í þingið fyrir skömmu og í atkvæðagreiðslu eftir 3. umræðu nú á dögunum.

Frumkvæðið frá Póllandi

Eftir heimsstyrjöldina síðari var það Pólland sem átti frumkvæði og beitti sér af krafti fyrir aukinni vernd börnum til handa. Þessi barátta Pólverja leiddi til þess að árið 1959 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna einróma Yfirlýsinguna um réttindi barnsins, sem hafði að geyma tíu meginreglur um réttindi barna eingöngu og byggði að hluta til á Genfar-yfirlýsingunni frá árinu 1924 og að hluta til á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna felur í sér skuldbindandi samkomulag þjóða heims um sérstök réttindi börnum til handa, óháð réttindum hinna fullorðnu. Þótt aðildarríkin að samningnum séu skuldbundin til að tryggja börnum þau réttindi sem samningurinn veitir þeim er sú skuldbinding aðeins samkvæmt þjóðarétti. Vegna tvíeðliskenningarinnar sem lögð er til grundvallar í lagatúlkun hér á landi þarf að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Því er ekki hægt að beita Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum og lögfesting hans jafn mikilvæg og raun ber vitni.

Barnasáttmálinn er grundvallarsáttmáli og mikilvægt að hann hafi verið lögfestur hér á landi með sama hætti og gert var með Mannréttindasáttmála Evrópu. Vægi Barnasáttmálans verður þá meira hér á landi þar sem stjórnvöld og dómstólar landsins verða að taka mið af honum við úrlausnir mála sem varða börn. Réttarstaða barna batnar umtalsvert. Það er stór áfangi og ástæða til að fagna því sérstaklega að Alþingi hafi lokið vinnu þessari fyrir þinglok.




Skoðun

Sjá meira


×