Skoðun

Ungt fólk og lífeyrismál

Guðlaug Kristjánsdóttir skrifar
Framfærsla í ellinni er sennilega ekki efst í huga ungs fólks sem leggur út á vinnumarkaðinn, stofnar fjölskyldu og kemur sér fyrir á eigin spýtur. Á námsárunum snýst lífið um að komast áfram milli anna, sinna félagslífinu og hafa í sig og á. Síðan taka oftast við ár þar sem markmiðið er að komast milli mánaða, ná endum saman og skutlast milli staða með sjálfan sig og aðra. Þannig geta liðið nokkur ár áður en ljóst verður að leiðin liggur sífellt nær miðaldra tilveru hins ráðsetta.

Lífeyrissjóðir eru fyrst og fremst áhugamál á seinni hluta ævinnar, þegar styttist í að framfærslan verði sótt til þeirra og starfslok verða annað og meira en fjarlæg hugmynd. Vinnandi fólk á öllum aldri tekur þó þátt í uppbyggingu sjóðanna, enda greiðslur í þá lögbundin skylda frá fyrsta starfsdegi.

Hafi einhvern tímann verið mikilvægt að ungt fólk láti til sín taka í lífeyrismálum þá er það núna, enda hefur framtíðaruppbygging þeirra verið til umræðu síðustu ár.

Í sjálfu orðinu „framtíðarkerfi“ er augljós sú staðreynd að uppbygging þess er fyrst og fremst málefni ungs fólks sem verður á vinnumarkaði í framtíðinni. Kerfisbreyting á kjörum þeirra sem þegar eru langt komnir með uppbyggingu lífeyris síns er ólíkleg, enda væri slík framkvæmd afar ómálefnaleg.

Nýtt kerfi getur þannig fyrst og fremst beinst að sjóðfélögum framtíðarinnar. En hverjir eiga að stýra breytingunum? Mikilvægt er að ungt fólk kynni sér lífeyrismál og móti sér skoðun um hvernig kerfi það vill sjá.

Meðal spurninga sem vert er að athuga er hversu stór hluti tekna eigi að renna til uppbyggingar ellilífeyris. Og hvernig á sparnaðurinn að vera saman settur; hversu stór hluti ætti að renna til samtryggingar og hvað vill fólk geta lagt til hliðar með öðrum hætti?

Að sama skapi er mikilvægt að íhuga hversu stór hluti greiðslur úr lífeyrissjóðum ættu að vera af framfærslu fólks í ellinni og hvaða aðrar tegundir sparnaðar ættu að vera hluti af þeirri heild.

Ég hvet ungt fólk eindregið til að leiða hugann að skipulagi lífeyrismála og ef þú, lesandi góður, ert kominn yfir miðjan aldur (sem allar líkur eru á miðað við að þessi grein fjallar um lífeyrismál) vil ég hvetja þig til að hjálpa mér að ná eyrum þeirra sem yngri eru.




Skoðun

Sjá meira


×