Skoðun

Ferðafrelsi og náttúruvernd

Björn Guðmundsson skrifar
Við landnám N-Ameríku fóru evrópskir landnemar sem logi yfir akur á leið sinni vestur. Hugtakið náttúruvernd var lítt þekkt og hart var gengið fram gagnvart náttúru landsins. Sem dæmi má nefna vísundaveiðar þar sem milljónum dýra var slátrað svo lá við útrýmingu.

Þó kviknaði ljós hjá fáeinum framsýnum mönnum og Yellowstone-þjóðgarðurinn var stofnaður 1872. John Muir stofnaði 20 árum síðar náttúruverndarsamtökin Sierra Club í Kaliforníu, sem börðust fyrir náttúruvernd og stofnun fleiri þjóðgarða.

Bílaöld gekk í garð og vegir voru lagðir að þjóðgörðum og um þá. Fljótlega varð ljóst að nauðsynlegt var að takmarka bílaumferð um verndarsvæðin. Síðan er liðin meira en hálf öld. Á Íslandi er hins vegar enn margt fólk sem skilur ekki þessa hugsun.

Ég heimsótti nýlega tvo þjóðgarða á vesturströnd Bandaríkjanna, Mt. Rainier-þjóðgarðinn (stofnaður 1899) og North Cascades-þjóðgarðinn (st. 1968). Sá síðarnefndi byggir mjög á hugmyndafræði Johns Muir. Þeir sem vilja skoða þjóðgarðinn almennilega verða að leggja land undir fót og fara annaðhvort í dagsgöngur eða taka með sér göngutjald. Í bílalandinu mikla þar sem frelsi einstaklingsins er í hávegum haft í stjórnarskránni þykir það orðið sjálfsagt að vernda stór landsvæði fyrir vélknúnum farartækjum.

Gera ekki kröfur

Áratugum saman hef ég stundað gönguferðir úti í náttúrunni á Íslandi, í Sviss, Austurríki, Frakklandi, á Ítalíu og í Bandaríkjunum. Göngurnar sem ég fór í í North Cascades-þjóðgarðinum í Washington-fylki eru einhverjar þær mögnuðustu sem ég hef upplifað. Þarna er stórkostleg náttúrufegurð og kynngimagnaðar óbyggðir lausar við vélknúin farartæki.

Íbúar fylkisins eru stoltir af náttúru þess og gera ekki kröfu til þess að allir komist á alla staði á bíl. Gönguferðir í óbyggðum eru lífsstíll margra þarna og öflug sjálfboðaliðasamtök halda við frábærum göngustígum.

Evrópa er hins vegar orðin svo þéttbýl að þar eru varla til nein ósnortin víðerni og víst er að Evrópubúar gæfu mikið fyrir að eiga slík svæði í dag.

Hér á landi skortir hins vegar marga skilning á gildi ósnortinna óbyggða og víðerna. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Skv. frumvarpi að nýjum náttúruverndarlögum er ætlunin að „taka til" í vega- og slóðakerfi landsins. Á Íslandi eru margir vegslóðar sem myndast hafa í áranna rás án alls skipulags og án tillits til náttúruverndar. Sumum þeirra þyrfti að loka.

Frelsið vandmeðfarið

En þá kemur fram hópur manna og hrópar hátt um skert ferðafrelsi. Já, frelsið er dýrmætt, en það er vandmeðfarið og getur auðveldlega snúist upp í andhverfu sína. Við búum við mörg lög sem takmarka frelsi okkar að ýmsu leyti og það er nauðsynlegt. Ekki dugar alltaf að treysta á skynsemi fólks. Sú afstaða að allir eigi rétt á að komast á alla staði á vélknúnu farartæki er löngu úrelt.

Samtök áhugafólks um ferðafrelsi birtu auglýsingu þar sem því er haldið fram að stangveiðimaður sem „ekur upp með á að veiðistað" sé að brjóta lög ef nýju náttúruverndarlögin verða samþykkt. Sjálfur er ég veiðimaður og hef engar áhyggjur af því að ég verði sektaður fyrir að aka veiðivegina meðfram veiðiánum sem ég veiði í. Ég tel að hér sé verið að mála skrattann á vegginn.

Leiðarljós umræddra samtaka virðist ímyndaður heilagur réttur eða jafnræðisregla sem kveður á um að allir eigi að komast á alla staði á vélknúnu farartæki. Menn bera því við að ekki geti allir gengið langar vegalengdir og nefna öryrkja, aldraða og börn. Ég dreg í efa að 4x4 menn hafi uppi þennan málflutning af umhyggjusemi við ofangreinda hópa.

Hafa menn hugsað þessa hugsun til enda? Eigum við þá að malbika veg upp að Svartafossi í Skaftafellsþjóðgarði? Og inn í Morsárdal? Og Kristínartindahringinn? Upp á tind Herðubreiðar? Um Hornstrandafriðlandið? Eigum við kannski að malbika allt landið?

Já, ég vil hafa frelsi til að ferðast um landið og njóta útivistar í íslenskri náttúru. Sums staðar verður það best gert í friði fyrir vélknúnum farartækjum. Þá leggur maður bílnum og reimar á sig gönguskóna. „Wildness is a necessity," sagði John Muir.




Skoðun

Sjá meira


×