Skoðun

Skattland

Þórey Vilhjálmsdóttir skrifar
Eiginkona vinar míns fór í sérnám í heilbrigðisgeiranum til Stokkhólms fyrir tveimur árum og fluttist fjölskyldan því búferlum þangað. Þessi vinur minn hafði þann kost að geta sinnt sínu starfi á Íslandi í fjarvinnu og bað hann skattayfirvöld í Svíþjóð um að meta hvort hagkvæmara væri fyrir hann að greiða skatta þar í landi en á Íslandi. Svarið var að svo væri og þegar álagningarseðlar voru sendir út fékk hann endurgreiðslu sem nam rúmlega mánaðarlaunum hans fyrir umrætt ár. Það þarf ekki að hafa um það mörg orð hversu miklu munar fyrir þessa litlu millistéttarfjölskyldu að hafa einum mánaðarlaunum meira til ráðstöfunar á ári hverju.

Hæstu tekjuskattarnir á ÍslandiÞetta er aðeins eitt af mörgum sláandi dæmum um hið ósanngjarna tekjuskattskerfi Íslendinga sem svo margir eru farnir að flýja. Það kemur nefnilega í ljós að þegar hið þrepaskipta tekjuskattskerfi á Íslandi er borið saman við önnur lönd, og lífeyrissjóðsiðgjöld eru tekin með, er Ísland með hæstu tekjuskatta í Evrópu. Efsta tekjuskattsþrepið okkar verður 58% þegar lífeyrissjóðsiðgjöldin eru tekin með.

Ósanngjörn skilgreining á hátekjum

En þetta er ekki það eina sem er ósanngjarnt við tekjuskattskerfið. Annað sem er ekki síður alvarlegt og bitnar mjög illa á millistéttinni er hversu lágt tekjuviðmið er fyrir þriðja og jafnframt efsta þrepið. Efsta þrepið okkar án lífeyrissjóðsiðgjalda er 46% og hafa þeir sem eru með 704.367 krónur í mánaðarlaun eða meira, fallið undir það þrep. Í Svíþjóð er miðað við tæplega eina milljón króna fyrir efsta þrep og í Bretlandi er þetta viðmið tvær og hálf milljón króna í mánaðarlaun. Hér á Íslandi er eitt lægsta tekjuviðmið á efsta skattþrepið í Evrópu sem þýðir í raun að við skilgreinum háar tekjur sem miklu lægri upphæð en önnur lönd.

Samkeppnin um fjölskyldurnarÞessi ósanngjarna skattheimta bitnar sérstaklega illa á millistéttinni sem greiðir mun hærri skatta en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur eins og dæmið með vin minn sýnir svo skýrt. Núverandi ríkisstjórn hefur gert 29 breytingar á tekjuskattskerfinu einu síðan hún tók við en í heild eru skattabreytingar á þessu tímabili vel yfir hundrað talsins. Breytingar sem því miður hafa ekki verið í þágu fjölskyldna og fyrirtækja í landinu. Við erum í harðri samkeppni við önnur lönd sem fyrsti búsetukostur fyrir fjölskyldur og það er ekki sjálfgefið að íslenskar fjölskyldur velji að búa á Íslandi ef fórnarkostnaðurinn er jafnmikill og raun ber vitni. Við sem kærum okkur ekki um að sjá á eftir fleiri vinum flytjast af landi brott verðum að beita okkur fyrir réttlátara skattkerfi sem gerir fólki kleift að nýta tækifærin sem okkar góða land getur boðið upp á.




Skoðun

Sjá meira


×