Skoðun

Skilvirkir samningar

Guðlaug Kristjánsdóttir skrifar
Aðilar vinnumarkaðar hafa að undanförnu rætt vinnulag við kjarasamningagerð. Samanburður við nágrannalönd bendir til að ferli við gerð kjarasamninga hérlendis sé tímafrekt og að skilvirkni mætti bæta til muna.

Fulltrúar BHM hafa bent á mikilvægi þess að undirbúningur í aðdraganda kjarasamninga sé góður og að haldgóðar upplýsingar liggi þar til grundvallar. Sameiginleg rýni og mat á hagstærðum er til þess fallin að auka traust milli aðila og skapa sátt um grundvöll og umgjörð samninga.

Nú hafa Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins lýst yfir, við endurskoðun kjarasamninga þeirra á milli nú í janúar, vilja til að efla og bæta vinnubrögð við samningagerð. BHM fagnar því.

Nú er gildistími samninga mislangur og oftar en ekki sammælast aðilar samhliða undirritun þeirra um ýmis verkefni sem vinna þarf að á samningstímabilinu. Til að undirbúningur nýrra samninga geti verið skilvirkur þarf vinna við bókanir og samkomulag sem fylgir gildandi samningum að ganga eftir. Það sem af er yfirstandandi samningstímabili hefur þessi hluti samninga alls ekki gengið nógu vel, tímamörk ekki staðist og sum verkefni ekki komist á dagskrá.

Kjarasamningar aðildarfélaga BHM við ríkið eru í raun gerðir í tveimur áföngum, þegar undirritun miðlægs samnings er í höfn tekur við gerð stofnanasamninga á vinnustöðum félagsmanna. Talsvert hefur skort á skilvirkni við þennan hluta kjarasamninga undanfarin ár. Stofnanir eru vitanlega margar og ólíkar, sums staðar eru þessi mál í góðum farvegi en annars staðar ríkir pattstaða. Landspítali er eflaust sú stofnun þar sem misbrestur á gerð stofnanasamninga er hvað best þekktur, en staðan þar er þó ekki einsdæmi. Slíkt þrátefli er síst til þess fallið að liðka fyrir gerð næstu samninga.

BHM er umhugað um að ferli við kjarasamningagerð sé sem skilvirkast. Ljóst er að þar þurfa allir aðilar að leggja sitt af mörkum. Æskilegt er að farið verði að fordæmi nágrannalandanna við undirbúning samninga, og að allir aðilar vinnumarkaðar sameinist við mat á umgjörð samninga og gerð launastefnu. Síðast en ekki síst er skilvirk eftirfylgni gildandi kjarasamninga og trúverðug vinna við að það sem undirritað var nái fram að ganga forsenda fyrir trausti milli aðila í næstu samningum.




Skoðun

Sjá meira


×