Innlent

Ráðherra sakaður um þöggun

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Ögmundur Jónasson og Sigurður Ingi Jóhannsson
Ögmundur Jónasson og Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sakaði Ögmund Jónasson innanríkisráðherra um þöggun vegna viðbragða hans við ummælum forstjóra Útlendingastofnunar, Kristínar Völundardóttur.

Ráðherra svaraði fyrirspurnum Sigurðar á Alþingi í gær þar sem rætt var um viðbrögð ráðherra við ummælum Kristínar, en hann hafði sagt þau óeðlileg og að hann væri hjartanlega ósammála þeim.

Sigurður sagði slíkt „tilburði til þöggunar í garð embættismanna".

„[Flóttamannatúrismi] er þekkt hugtak á Norðurlöndunum og er þá ekki í lagi að embættismenn komi fram án þess að verða fyrir árásum af hæstvirtum ráðherra?" spurði hann. Þá bætti hann við hvort viðbrögð ráðherra yrðu ekki til þess að embættismenn þyrðu ekki að benda á það sem miður færi og að það væri þöggun.

Ögmundur þvertók fyrir þá gagnrýni og benti á að málfrelsi ríkti vissulega í landinu en þegar menn ræddu viðkvæm mál eins og hælisleitendur væri nauðsynlegt að gæta tungu sinnar. Hann væri enn á þeirri skoðun að ummæli forstjórans hefðu verið óeðlileg. Og þó hugtakið væri vissulega viðurkennt væri það á sama tíma afar umdeilt.

Kristín fundaði um málið með ráðherra á mánudag þar sem ráðherra ákvað að láta skoða alla verkferla Útlendingastofnunar og ætlar að láta af því verða á næstu dögum.

„Ég er sannfærður um það að þetta snúist ekki bara um mannafla og fjármagn, heldur einnig um verklag," sagði Ögmundur og bætti við að ekkert nema jákvætt hefði komið út úr fundinum með forstjóra Útlendingastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×