Innlent

Blær er vongóð um viðsnúning

Haukur Viðar Alfreðsson og Þorgils Jónsson skrifar
Björk Eiðsdóttir
Björk Eiðsdóttir
Móðir Stúlku Bjarkardóttur Rúnarsdóttur segir dóttur sína vongóða um að ákvörðun mannanafnanefndar um að synja henni þess að fá að bera nafnið Blær verði hnekkt fyrir dómi.

Aðalmeðferð fór fram í máli Blævar í gær, en Björk Eiðsdóttir, móðir stúlkunnar, höfðaði mál á hendur innanríkisráðherra eftir að mannanafnanefnd komst að þeirri niðurstöðu að hún mætti ekki heita Blær, þar sem um karlmannsnafn væri að ræða. Björk sagði í viðtali við Vísi.is í gær að Blær væri vongóð.

„Hún tilkynnti dómara það að hún sé alsæl með nafnið, og hafi aldrei lent í neinum vandræðum með það nema í samskiptum við hið opinbera,“ sagði Björk um dóttur sína. Blær bar sjálf vitni, sem og Björk og lögmaður mannanafnanefndar.

„Lögfræðingur minn lagði fram gögn sem sýna að fordæmi er fyrir því að nafn geti verið bæði karlkyns og kvenkyns,“ sagði Björk.

Niðurstöðu í málinu er að vænta fyrir mánaðamót, en mál Blævar hefur vakið heimsathygli, og ratað inn á borð fjölmiðla um allan heim. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×