Innlent

Látinn hætta með laun út árið

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Jón Pálmi Pálsson
Jón Pálmi Pálsson
Jón Pálmi Pálsson, sem látið hefur af störfum bæjarritara á Akranesi, fær greidd laun út þetta ár samkvæmt samkomulagi um starfslok hans.

Í yfirliti sem lögmenn tóku saman um greiðslur til Jóns Pálma frá árinu 2010 kemur fram að hann rukkaði ítrekað tvo aðila fyrir sama aksturinn. Hann sat í stjórnum Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og Menningarráðs Vesturlands og rukkaði oft þessa aðila fyrir sama aksturinn og hann rukkaði Akranesbæ fyrir. Jón Pálmi viðurkenndi að hafa gert mistök að þessu leyti og endurgreiddi bæjarsjóði. „Jón Pálmi álítur að sú leiðrétting feli í sér farsæla lausn málsins," segir í bréfi lögmanns sem gætti hagsmuna bæjarritarans.

Jón Pálmi hafnaði hins vegar ásökunum um að það hafi verið brot á starfsskyldum að þiggja laun fyrir setur sínar í fyrrgreindum nefndum „enda afar óréttlátt og órökrétt að nefndarmenn séu látnir gjalda fyrir það í launum sínum fyrir nefndirnar að vera starfsmenn sveitarfélags sem hefur aðkomu að starfi nefndarinnar," sagði lögmaður bæjarritarans. „Eðlilegt er að það sé tekið til skoðunar innan hverrar stofnunar fyrir sig hvaða þóknanir sé eðlilegt og rétt að greiða en það er starfi Jóns Pálma sem bæjarritara algerlega óviðkomandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×