Innlent

Sex milljarðar í að klára tvöföldunina

Þorgils Jónsson skrifar
Það mun kosta ríkið sex milljarða að klára lagningu brautarinnar inn í Hafnarfjörð. 
fréttablaðið/Pétur
Það mun kosta ríkið sex milljarða að klára lagningu brautarinnar inn í Hafnarfjörð. fréttablaðið/Pétur
Sex milljörðum króna verður varið á næstu tíu árum til að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar Hafnarfjarðarmegin. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Guðlaugssonar.

Í svari sínu segir ráðherra að á samgönguáætlun sé gert ráð fyrir að umræddur vegarkafli, sem er um átta kílómetra langur og nær frá sveitarmörkum Hafnarfjarðar, fram hjá Álverinu í Straumsvík og inn undir kirkjugarðinn, verði kláraður í tveimur áföngum. Annars vegar á árunum 2015 til 2018 þegar 1,8 milljörðum verður varið til verksins og svo á árunum 2019 til 2022 þegar 4,2 milljarðar verða settir í verkið.

Ekki liggur fyrir tímasetning um lok tvöföldunar sex kílómetra kafla frá Fitjum í Reykjanesbæ upp að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en samkvæmt svari ráðherra minnkar umferð verulega þegar komið er fram hjá Fitjum.

Kostnaður við þann kafla Reykjanesbrautar sem þegar hefur verið tvöfaldaður, um 24 kílómetra vegalengd, er um það bil 6,3 milljarðar, uppreiknað að verðlagi í nóvember síðastliðnum.

Ráðherra svaraði því einnig til að uppsetning víravegriða sem skilja að umferð úr sitthvorri átt ætti að hefjast í ár sunnan Straumsvíkur. Framkvæmdum ætti að ljúka á árunum 2015 til 2016 og kostnaður er áætlaður um 350 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×