Innlent

Samdráttur fram úr svörtustu akstursspá

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Horft niður í Eyjafjörð. Slæm tíð í fyrravetur er sögð geta hafa haft áhrif til aukins samdráttar á umferð um Víkurskarð.
Horft niður í Eyjafjörð. Slæm tíð í fyrravetur er sögð geta hafa haft áhrif til aukins samdráttar á umferð um Víkurskarð. Fréttablaðið/GVA
Samdráttur umferðar um Víkurskarð reyndist hálfu prósentustigi meiri en í svörtustu spánni sem Vegagerðin setti fram í Endurskoðaðri umferðarspá um Vaðlaheiðargöng 2016 til 2040.

Í spánni, sem gerð var í mars í fyrra, voru settar fram lágspá, miðspá og háspá. Lágspáin gerði ráð fyrir að umferð um Víkurskarð drægist saman um 5,0 prósent milli 2011 og 2012. Nýjar tölur Vegagerðarinnar sýna nú 5,5 prósenta samdrátt milli áranna.

Að sögn Friðleifs Inga Brynjarssonar, verkefnastjóra á umferðardeild Vegagerðarinnar, hefur umferð um Víkurskarð dregist saman um tólf prósent frá árinu 2010 þegar hún mældist hvað mest.

Hann segir að fyrir utan almennan samdrátt í þjóðfélaginu megi að einhverjum hluta rekja samdrátt umferðar á síðasta ári til slæms tíðarfars síðasta vetur.

Þá bendir hann á að samdráttur síðasta árs sé ekki svo fjarri því sem hafi mátt vænta, miðað við spána í endurskoðaðri langtímaspá Vegagerðarinnar fyrir umferð um Víkurskarð.

„Þessu til viðbótar gera svartsýnustu spár Vegagerðarinnar ráð fyrir því að umferð um Víkurskarðið geti ekkert aukist til ársins 2015. Þannig reynir Vegagerðin að taka tillit til afar óhagstæðrar þróunar í sínum spám,“ segir Friðleifur Ingi.

Þá segir hann of stutt liðið af þessu ári til að draga ályktanir um það hvernig umferðin um Víkurskarðið verði árið 2013. „En fyrstu sautján dagarnir gefa þó 9,5 prósentum meiri umferð en fyrir sama tímabil á síðasta ári. Þá verður einnig að hafa í huga að sama tímabil í janúar árið 2012 sýndi fjögurra prósenta aukningu miðað við árið þar á undan, en samt varð niðurstaðan 5,5 prósenta samdráttur.“ Vísbendinga um aukningu eða samdrátt á árinu verði því að bíða þar til tölur liggifyrir um umferð á fyrsta ársfjórðungi.

Þá segir Friðleifur Ingi sömuleiðis of skammt komið inn á spátímann, sem sé til áratuga, til þess að tölurnar fái haft áhrif á áætlanir um gerð Vaðlaheiðarganga. „Og þó að fyrsta árið koksi eitthvað skulum við nú sjá hvernig fer á næsta og þarnæsta líka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×