Innlent

Fjármál kirkjunnar og söfnun tvennt ólíkt

ÞEB skrifar
Birgir Ásgeirsson
Birgir Ásgeirsson
„Kirkjan er að fara fram á að almenningur sameinist um það að gera þetta að forgangsverkefni, og það er af því að neyðin er svo mikil. Spítalinn er í algerri öng,“ segir séra Birgir Ásgeirsson prófastur um þá tillögu Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, að kirkjan standi fyrir söfnun til handa Landspítalanum.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, sagði í fréttum RÚV í gær að það skyti skökku við að kirkjan ætlaði að standa að slíkri söfnun. Kirkjan hefði sjálf þrýst mjög á að fá viðbótarfjárveitingu á fjárlögum en þeir fjármunir hefðu annars getað farið í tækjakaup á spítalanum.

Séra Birgir segist undrandi á ummælum Sigríðar. „Kirkjan er ekki að fara fram á aukaframlag á fjárlögum heldur að hið opinbera skili þeirri innheimtu sem átt hefur sér stað fyrir hönd kirkjunnar.“ Ríkið hafi tekið að sér að innheimta sóknargjöld og greiðslur til trúfélaga og eigi að standa skil á því, sem ekki hafi verið gert að fullu.

Biskupinn sagði sjálfur á fésbókarsíðu sinni í gær að fjármálum kirkjunnar og landssöfnun fyrir Landspítalann ætti ekki að blanda saman. Kirkjan hefði fengið mikil og góð viðbrögð við hugmyndinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.