Fótbolti

Íslensku stelpurnar áttu forsíðuna

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Forsíða Barometern í morgun.
Forsíða Barometern í morgun.
Barometern, staðarblaðið í Kalmar, fjallaði ítarlega um leik Íslands og Noregs í EM kvenna í Svíþjóð sem fram fór í gær. Þetta var fyrsti leikur liðanna á mótinu og jafnframt fyrsti leikurinn í keppninni sem fram fór í Kalmar.

Íslensku stelpurnar voru bæði á forsíðu blaðsins og svo var einnig opnugrein inn í blaðinu um leikinn í gær þar sem íslenska liðið tryggði sér jafntefli með frábærum lokakafla.

Fyrirsögnin á greininni í Barometern var „Ískaldir Íslendingar refsuðu Noregi" en refsing og víti eru sama orðið í sænskunni og því átti þetta vel við enda kom jöfnunarmark íslenska liðsins úr vítaspyrnu.

Í greininni er síðan viðtal við Söru Björk Gunnarsdóttur, besta leikmann vallarins að mati UEFA, og Hólmfríði Magnúsdóttur sem blaðamaður Barometern fannst standa sig best allra í íslenska liðinu í leiknum í gær.

Greinin í Barometern í morgun.
Sif Atladóttir prýddi forsíðu blaðsins í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×