Lífið

Yesmine á leið í finnskt sjónvarp

Yesmine er einnig með matreiðslunámskeið sem hún heldur heima hjá sér. Nóg er að gera í sölu gjafakorta á námskeiðið.Fréttablaðið/Valli
Yesmine er einnig með matreiðslunámskeið sem hún heldur heima hjá sér. Nóg er að gera í sölu gjafakorta á námskeiðið.Fréttablaðið/Valli
„Mér finnst þetta spennandi og skemmtilegt. Gaman að fara með það sem ég er að gera til útlanda,“ segir Yesmine Olsson, en þættir hennar Framandi og freistandi, sem voru á dagskrá Ríkissjónvarpsins í vetur, verða sýndir á finnsku sjónvarpsstöðinni YLE Fem.

Því mætti ætla að þættirnir yrðu sýndir með finnskum texta. „Nei, þetta er sænskumælandi stöð, þannig að þetta verður með sænskum texta,“ segir Yesmine, en það er kaldhæðnislegt í ljósi þess að Yesmine er alin upp í Svíþjóð og talar reiprennandi sænsku.

Yesmine hefur haft í nógu að snúast undanfarið en hún gaf út matreiðslubókina Í tilefni dagsins sem hefur selst vel. Hún hefur einnig sett nýtt súkkulaði í sölu, Chili-súkkulaðibita. „Bitarnir eru komnir í sölu í Kjólum og konfekti og Munnhörpunni. Þeir verða til sölu á fleiri kaffihúsum innan skamms. Ég ákvað að byrja rólega og sjá hvernig viðtökurnar yrðu,“ útskýrir Yesmine. Hún framleiðir ekki eingöngu súkkulaði ofan í gesti Munnhörpunnar, hún var óvænt fengin sem gestakokkur á staðnum fyrir stuttu.

„Ég fagnaði útgáfu bókarinnar minnar með teiti í Munnhörpunni og þá kviknaði hugmyndin um samvinnu milli mín og kokkanna þar. Ég var þarna bæði í hádeginu og um kvöld og fannst þetta mjög gaman, skemmtileg tilbreyting. Við gerum þetta pottþétt aftur.“ - kak






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.