Innlent

1,5 milljarðar í tækjakaup

Svavar Hávarðsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Áætlun Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra um að veita tæplega 1,5 milljarða króna til tækjakaupa á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri var kynnt í ríkisstjórn á föstudag. Fjárlaganefnd fékk minnisblað þessa efnis til umfjöllunar í gær.

Kristján Þór segir alltaf hafa staðið til að kynna hugmyndir um fjárframlag til tækjakaupa í ríkisstjórn og fjárlaganefnd fyrir aðra umræðu fjárlaga enda var það tiltekið í frumvarpinu. „Ég hef kynnt tækjakaupaáætlun í ríkisstjórninni og sendi svo nefndinni minnisblað um það. Þar geri ég ráð fyrir að Landspítalinn muni fá 1.262 milljónir króna og sjúkrahúsið á Akureyri fái 273 milljónir á næsta ári. Svo verður að koma í ljós hvernig fjárlaganefnd fer með þetta. En í ljósi umræðunnar inni í nefndinni, og samstöðunnar, þá er ég bjartsýnn á að menn bregðist vel við. Það kemur svo í ljós hvernig afgreiðsla nefndarinnar verður þegar frumvarpið kemur til annarrar umræðu,“ segir Kristján Þór.

Eins og fram hefur komið munu framlög til Landspítalans verða aukin um þrjá til fjóra milljarða króna frá upphaflegum forsendum fjárlaga, náist samstaða hjá stjórnarflokkunum um niðurskurð á móti.

Kristján vill ekki tjá sig um málið að öðru leyti en því að hann sé að vinna að framgangi þessa tiltekna máls í samræmi við þær áherslur sem ríkisstjórnin boðaði þegar frumvarpið var lagt fram.

Fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna rekstrar Landspítalans næmu 38,5 milljörðum króna. Stjórnendum spítalans var brugðið þegar frumvarpið var kynnt í byrjun október. Þá var tímabundin 600 milljóna króna fjárveiting til tækjakaupa felld niður, en Kristján Þór tók strax af allan vafa um það að fjármagn yrði veitt til þessa liðar og aðgerðin kynnt við aðra umræðu frumvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×