Lífið

Airwaves fyrir unglinga í fyrsta sinn

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Svava Gunnarsdóttir sér um að leiðbeina hópnum sem skipuleggur fyrstu Airwaves unglingatónleikana.
Svava Gunnarsdóttir sér um að leiðbeina hópnum sem skipuleggur fyrstu Airwaves unglingatónleikana. fréttablaðið/stefán
„Þetta er í fyrsta skiptið sem að þetta er haldið og er allt unnið í samvinnu við Airwaves,“ segir Svava Gunnarsdóttir, leiðbeinandi hóps sem hefur unnið að skipulagningu Airwaves-tónleika fyrir unglinga á vegum Samfés.

„Hugmyndin að tónleikunum vaknaði hjá Samfés, við ákváðum að setja saman unglingahóp sem hefur unnið að skipulagningunni. Þetta er sérstaklega gert fyrir unglingana sem ekki eru komnir með aldur til að mæta á formlegu Airwaves-hátíðina. Markmið þeirra er að bæta tónleikamenningu ungs fólks. Skólaböll og diskótek eru í rauninni það helsta sem unglingar hér á landi hafa aðgang að,“ útskýrir Svava.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, er mjög hrifinn af framtakinu en fyrsta skref skipulagningarhópsins var að tala við Grím.

„Við fengum styrk frá Evrópu unga fólksins, samtökum þar sem hægt er að sækja um styrki, en þau vinna að málum ungs fólks í Evrópu,“ segir Svava.

Tónleikarnir eru einnig unnir í samstarfi við tónleikaröðina Drullumall, sem fer fram einu sinni í mánuði í Austurbæjarskóla.

Tónleikarnir fara fram í Risinu í Austurbæjarskóla í dag og á morgun og eru hluti af utandagskrá Airwaves-hátíðarinnar. Þar koma fram fimm unglingasveitir og fimm reyndari sveitir, þeirra á meðal eru Emmsjé Gauti, Meistarar Dauðans, Dikta og Lockerbie.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.