Skoðun

Hlutskipti ömmunnar

Þórey A. Matthíasdóttir skrifar
Nú er það komið þannig í okkar samfélagi að illmögulegt er fyrir konur yfir fimmtugu að fá vinnu hérlendis. Konur á þessum aldri eru farnar að hugsa sér til hreyfings og eru jafnvel fluttar erlendis til að komast í vinnu. Börn sem eru afkomendur þeirra þekkja ekki brottfluttar ömmur sínar nema að litlu leyti í samskiptum í gegnum Skype eða Facebook. Er það þannig sem samfélagið okkar vill hafa hlutina, klippa á tengsl kynslóðanna? Eitthvað virðist vera auðveldara fyrir konur yfir fimmtugu að fá vinnu í Noregi en hér og það er fljótt að vinna sig upp eftir 10-15 ár þar í starfi og öðlast lífeyrisréttindin. Þó svo að maður heyri að hugur miðaldra kvenna sem ég veit um liggi alltaf heim til Íslands aftur í ellina. Með betri eftirlaun í sterkum gjaldmiðli.

Af hverju eru konur á Íslandi ekki álitnar góður kostur til vinnu eftir fimmtugt? Er einhverjir fordómar sem valda því? Telja atvinnurekendur að þessi aldurshópur sé staðnaður og séu með minni kunnáttu en yngra fólkið? Er talið að þessi aldurshópur sé ábyrgðarminni í sínum störfum?

Er Kvenréttindasamband Íslands hætt að berjast fyrir jafnrétti og hag íslenskra kvenna? Ég las reyndar ágætis grein frá þeim nýverið um hag kvenna í Malaví, en eitthvað fer lítið fyrir áhuga þeirra á hag íslenskra kvenna. Því það er deginum ljósara að þær konur sem hafa ekki vinnu og er farið að síga á síðari hluta starfsævinnar eru margar dæmdar til að búa í fátæktargildru í ellinni. Því konur sem eiga ekki maka og lífeyrisréttindi eftir þá eru verr settar.

Einnig er spurning sem við 50 plús þurfum að spyrja okkur. Eigum við ekki að setja á þrýsting og eiga ekki viðskipti við fyrirtæki sem eru ekki með fólk á okkar aldri í vinnu? Þegar ég keypti mér nýjan bíl fyrir ári þá keypti ég ekki Mözdu 3 sem ég var að skoða því ég mundi eftir atvinnuauglýsingu frá því fyrirtæki þar sem umsækjendur þurftu að vera undir 45 ára. Mitt mat er að eiga ekki viðskipti við fyrirtæki sem er með þannig starfsmannastefnu.

Það er sama hvert litið er í samfélaginu, við blasa skekktar myndir og svo margt sem þarf að laga og sem verðum að laga. En hvort prinsipp um ömmulausa þjóð sé gott eða vont verða atvinnurekendur og stjórnmálamenn að gera upp við sig.




Skoðun

Sjá meira


×