Lífið

Safna fyrir DVD-útgáfu á Karolina Fund

Árni er nú í tökum á annarri seríu af Hinu blómlega búi.
Árni er nú í tökum á annarri seríu af Hinu blómlega búi.
Árni Ólafur safnar fyrir DVD-útgáfu á Hinu blómlega búi á Karolina Fund.

„Ég, Bryndís Geirsdóttir og Guðni Páll Sæmundsson stofnuðum okkar eigið framleiðslufyrirtæki, Búdrýgindi ehf. í kringum sjónvarpsþættina Hið blómlega bú. Við erum lítið framleiðslufyrirtæki og það fylgir því mikill kostnaður að fjármagna DVD-útgáfu. Við ákváðum að nota síðuna Karolina Fund til að fá velunnara okkar til að aðstoða við fjármögnun þannig að í raun er fólk að styrkja okkur beint frá býli,“ segir Árni Ólafur Jónsson, kokkur þáttanna sem sýndir voru á Stöð 2. 



Viðtökurnar sem teymið fékk á Karolina Fund, fyrstu hópfjármögnunarsíðu landsins, voru framar öllum vonum.

„Á innan við sólarhring söfnuðum við þriðjungi upphæðarinnar. Þetta er fullkomin leið fyrir fólk að fjármagna verkefnin sín og mjög jákvæð fyrir litla aðila eins og okkur. Við fengum margar fyrirspurnir um hvort ætti að gefa seríuna út á DVD og við ákváðum að svara því kalli. Við erum ákaflega þakklát fyrir þetta trygglyndi,“ segir Árni. Þau Bryndís og Guðni hafa til 9. desember til að safna upphæðinni á Karolina Fund og stefna á að gefa seríuna, alls átta þætti, út á DVD fyrir jólin.

Það er nóg að gera hjá framleiðslufyrirtækinu þar sem önnur sería af Hinu blómlega búi verður frumsýnd á Stöð 2 þann 22. nóvember. En hvað ber framtíðin í skauti sér hjá þremenningunum?

„Við viljum halda áfram með Hið blómlega bú og markmiðið er að gera sumarseríu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.