Íslenski boltinn

Feðgin dæmdu í 1. deild kvenna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/úr einkasafni

Bergur Þór Steingrímsson og dóttir hans, Ellen Elísabet, voru aðstoðardómarar á leik í 1. deild kvenna nú um helgina.

Það verður að teljast óvenjulegt að feðgin skulu starfa á sama leiknum sem dómarar en þau voru aðstoðardómarar á leik Fram og BÍ/Bolungarvíkur í 1. deild kvenna í gær.

„Hún var alltaf að spyrja mig út í reglurnar þannig að ég sendi hana bara á dómaranámskeið hjá KSÍ,“ sagði Bergur í samtali við Vísi en hann er reyndur knattspyrnu- og körfuboltadómari.

„Hún hafði gaman að því og hefur síðan þá verið að dæma hjá yngri flokkunum í Fjölni. Hún fór svo á héraðsdótmaranámskeið hjá KSÍ og við höfum nú dæmt tvo leiki saman,“ bætti hann við.

„Við létum reyndar lítið fara fyrir okkur í tengslum við fyrsta leikinn en þetta hefur gengið rosalega vel. KSÍ leggur ríka áherslur á að fá stelpur inn í dómarastéttina og hún fékk þau skilaboð að hún gæti náð langt sem dómari.“

„Ellen er sextán ára gömul og enn að spila fótbolta með Fjölni en ég sé fyrir mér að hún muni halda áfram í þessu. Hún mun taka dómgæsluna með stæl.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×