Innlent

Íslenski dansflokkurinn og sinfónían saman í fyrsta sinn í Eldborg

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Frá æfingu - Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenski dansflokkurinn á Eldborgarsviði.
Frá æfingu - Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenski dansflokkurinn á Eldborgarsviði. Mynd/Listahátíð

Íslenski dansflokkurinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands fara í eina sæng á Listahátíð í Reykjavík um helgina. Þar munu þau flytja tvö af frægustu danstónverkum tónskáldsins Igors Stravinskis á Eldborgarsviði. Þetta verður í fyrsta sinn sem dansflokkurinn og sinfónían vinna saman í Hörpu.



Lára Stefánsdóttir, listrænn stjórnandi dansflokksins, er virkilega spennt fyrir samstarfinu sem hefur verið í rúmt ár í bígerð. „Það er mjög spennandi að dansflokkurinn og sinfónían hafi tekið höndum saman til að gera þetta. Verkið er líka sögulegt að því leiti að verið er að sýna það víða um heim í tilefni 100 ára afmælis Stravinskys.“



Lára hefur unnið náið með Melkorku Magnúsdóttur danshöfundi og Filippíu Elísdóttur búningahönnuði að uppsetningu sýningarinnar og segir verkið einstaklega fallegt fyrir augað. „Þetta hefur tekið mjög skemmtilega stefnu. Það er auðvitað allt öðruvísi að sýna í Eldborgarsalnum og í Borgarleikhúsinu vegna þess að Eldborg er náttúrlega ekki leikhús. Við þurfum að ramma verkið inn með sterkum ljósum og þess vegna höfum við líka verðið í nánu samstarfi við mjög góðan ljósahönnuð “, segir Lára. „Svo munar auðvitað mjög miklu að sýna í sal sem tekur 1800 manns, en stóri salurinn í Borgarleikhúsinu tekur ekki nema 500 í sæti. Þetta er í fyrsta skipti sem við sýnum í Eldborg en vonandi ekki það síðasta.“

 

Sýningarnar verða 24. og 25 maí. Hægt er að nálgast miða hér.

Frá æfingu - Lára Stefánsdóttir segir sýninguna verða einstaklega fallega fyrir augað.Mynd/Listahátíð



Fleiri fréttir

Sjá meira


×