Innlent

Handvalið frelsi og Hitlersæskan

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Ljósmyndin þykir spaugileg og hefur farið víða eftir fundinn.
Ljósmyndin þykir spaugileg og hefur farið víða eftir fundinn. Mynd/Maggý Helga Jóhannsdóttir Möller
Í gær stóð Heimdallur - félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, fyrir femínistafundi í stóra sal Valhallar og var umræðuefnið staða femínisma á Íslandi í dag.

Framsögumenn fundarins voru þau Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, femínistinn Helga Þórey Jónsdóttir, Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður og Hildur Lilliendahl, femínisti og verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg.

Einn fundargesta smellti mynd af hópnum sem vakið hefur kátínu meðal netverja, en á henni virðist sem framsögumennirnir skemmti sér misvel yfir umræðunni.

Hildur Sverrisdóttir var ánægð með fundinn og segir myndina koma sér á óvart miðað við stemninguna á fundinum.

„Mér fannst fundurinn bæði góður og gagnlegur. Flott hjá Heimdalli að opna umræðuna og flott af Hildi Lilliendahl og Helgu Þóreyju að mæta til þess að ræða þessi mál svona á milli einhverra svona fyrirfram ákveðinna fylkinga. Þessi ljósmynd fangar sekúndubrot sem býr til aðra skynjun en var mín upplifun. Mér fannst einmitt eins og hlustað væri málefnalega á skoðanir allra og ég er sannfærð um að aðrir framsögumenn geti staðfest það."

Hildur segist kalla sig femínista vegna þess að hún telji að jafnrétti hafi ekki verið náð og eitthvað verði að gera í því. Hún segir að eins og rætt hafi verið á fundinum, þá snúist átakalínurnar um aðferðir.

„Það sem þessi fundur gerði var að minna á að þrátt fyrir að við séum að mörgu leyti með sama markmið að leiðarljósi þá eru skiptar skoðanir um aðferðirnar."

„Að halda að allt sé bara kúl"

Helga Þórey tekur í sama streng og segir fundinn hafa verið góðan.

„Mér fannst þetta mjög skemmtilegt. Ég upplifi það að þetta hafi verið eitthvað sem fólk í Sjálfstæðisflokknum vildi, og að margir fundargestir fögnuðu því að femínismi væri meira til umræðu innan raða hægrimanna."

Helga segir Brynjar hafa haft fulla ástæðu til þess að vera eins og hann var á myndinni.

„Miðað við hans málflutning hafði hann fulla ástæðu til þess. Hann er mjög blindur á sína stöðu í samfélaginu, og það sem er áhugavert við hans málflutning er að hann er mjög upptekinn af frelsi en hann virðist ekki átta sig á því að núverandi kynjakerfi fylgja líka óskrifaðar reglur. Það er ekki verið að koma neinum reglum á með því að fá okkur til að hugsa öðruvísi, það er verið að breyta þeim sem eru nú þegar á okkur. Það er grundvallarmunur á skilningi þar, að átta sig ekki á forréttindum sínum og halda að allt sé bara kúl."

Framsögumenn fundarins voru Hildur Sverrisdóttir, Helga Þórey Jónsdóttir, Brynjar Níelsson og Hildur Lilliendahl
Handvalið frelsi

Brynjar segir að sér hafi ekki leiðst á fundinum.

„Mín upplifun er að þessi femínismi sem hefur orðið ofan á í íslensku samfélagi hafi hvorki með kvenfrelsi né jafnrétti að gera, heldur sé bara venjulegur gamall vinstri sósíalistaboðskapur. Það er bara mín upplifun, ég hef skrifað um þetta áður."

Brynjar segir ómögulegt að þessar fylkingar geti komist að sameiginlegri niðurstöðu.

„Þetta eru venjulegir vinstrimenn. Þeir hertaka alltaf svona hugtök eins og kvenfrelsi, jafnrétti, mannréttindi og friðarumræðu, þó það hafi nú alltaf verið ófriður í kring um þá. Ég var bara að endurupplifa umræðuna frá því að ég var í menntaskóla um miðjan áttunda áratuginn þegar maður hlustaði á þessa rauðu femínista."

Brynjar talar um „handvalið frelsi vinstrimanna" og segir það hafa loðað við þá alla tíð.

Þegar ég tala um kvenfrelsi við vinstrimenn þá er það frelsi kvenna til alls, ekki bara eitthvað sem þeim hentar. Þær eru hlynntar kvenfrelsi þegar kemur að því að kona ráði yfir líkama sínum og fari í fóstureyðingu, en hún ræður ekkert yfir honum þegar hún ætlar að gerast staðgöngumóðir. Svo nálgast þær þetta út frá því að kynin séu í grunninn eins, sem er ótrúleg þvæla. Það er eins og þær lifi ekki í þessu samfélagi."

Hitlersæskan

Hildur Lilliendahl segist ánægð með Heimdall fyrir að halda fundinn og að hann hafi verið gagnlegur og skemmtilegur.

„Það var töffaralegt hjá þeim að standa fyrir þessu og á heildina litið var fundurinn málefnalegur. Auðvitað komu bæði atvik og athugasemdir sem voru síður málefnaleg. Ég held að femínistum hafi verið líkt við nasista í annarri eða þriðju spurningu úr sal eftir framsögur og talað um Hitlersæsku í því samhengi."

Hildur segir að helst hafi sér þótt Brynjar illa undirbúinn.

„Hann er ekkert rosalega vel að sér í þessu máli yfir höfuð. Hans „relevance" við þetta mál er bara eitthvað sem ég skil ekki alveg. Ég sé ekki að við getum fundið sameiginlegan umræðugrundvöll þegar kemur að kvenfrelsismálum. Hildur Sverris hefur hins vegar sett sig inn í málin. Hún hefur mikla þekkingu á allra manna málstöðum og kom sínu alveg rosalega vel frá sér."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×