Innlent

Tónlistarmaður neyddur til að nauðga konu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Héraðdómur dæmdi manninum 300 þúsund krónur í miskabætur.
Héraðdómur dæmdi manninum 300 þúsund krónur í miskabætur. mynd/pjetur
Karlmanni voru dæmdar 300 þúsund krónur í miskabætur frá ríkinu fyrir að hafa verið neyddur til samfara við konu gegn vilja sínum og eftir það sætt gæsluvarðhaldi í sex daga vegna gruns um nauðgun, í Héraðsdómi Reykjavíkur var í gær.

Brotaþoli sem var kona hafði leitað á slysadeild vegna nauðgunar þar sem hún sagði að maður, sem síðar var sakfelldur fyrir að nauðga henni, hefði skipað manninum að hafa samfarir við hana og að maðurinn hefði verið svo hræddur við hinn sakfellda að hann hafi ekki þorað að neita. Hún bar einnig síðar að maðurinn hefði í raun verið þátttakandi í nauðguninni af ótta við hinn sakfellda.

Maðurinn greindi frá málsatvikum á sama hátt við yfirheyrslur hjá lögreglu, að hann hefði óttast hinn sakfellda og gert það sem hann sagði honum að gera. Maðurinn vildi meina að hann hefði lagt sig allan fram við að aðstoða lögreglu við að upplýsa málið með mjög hreinskilningslegum framburði. Þá hafi hann veitt lögreglu upplýsingar sem varpaði ljósi á sök hins sakfellda og að rannsóknargögn endurspegluðu að hann hefði verið fórnarlamb í þessari atburðarás sem leiddu til handtöku hans. Manninum var síðar sleppt þegar rannsókn á hendur honum var hætt og málið fellt niður hvað hann varðaði.

Maðurinn taldi sig hafa orðið fyrir stórfelldum miska vegna þessa, mannorðsmissi og röskun á stöðu og högum. Maðurinn hélt því fram að í litlu samfélagi eins og Íslandi séu fréttir fljótar að breiðast út og það sé tilhneiging margra að líta svo á að saklaus maður geti varla sætt svo harkalegum aðgerðum lögreglu. Þá hafi gæsluvarðhaldið og rannsókn málsins haft slæm áhrif á samband mannsins og unnustu hans, eins og gefi að skilja, auk þess sem hann hafi misst af verkefnum sem tónlistarmaður, en það var hans aðalstarf. Eigendur skemmtistaða hafi strax frétt af gæsluvarðhaldinu og honum var hafnað í framhaldinu á þeim forsendum að það gæti vakið upp neikvætt umtal um staðina, sæist hann spila þar. Maðurinn taldi að tortryggni samferðamanna hans hangi enn yfir honum vegna málsins og muni gera það um ókomna framtíð.

Lögmaður íslenska ríkisins féllst á að skilyrði laga um greiðslu bóta í málinu væru uppfyllt en mótmælti því það að maðurinn hafi misst af verkefnum sem tónlistarmaður eða ætti í erfiðleikum í sambandinu við unnustu hans, gæti verið á ábyrgð ríkisins. Þá taldi lögmaðurinn bótakröfu mannsins, upp á eina milljón króna, of háa.

Héraðsdómur Reykjavíkur taldi manninn eiga rétt á bótum fyrir sex daga gæsluvarðahaldið sem hann var látinn sæta og fékk hann 300 þúsund krónur í miskabætur vegna málsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×