Íslenski boltinn

Guðjón Pétur ekki lengi án félags - samdi við Breiðablik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Pétur Lýðsson.
Guðjón Pétur Lýðsson. Mynd/Valli
Guðjón Pétur Lýðsson mun spila með Breiðabliki í Pepsi-deild karla í fótbolta í sumar en þetta kemur fram á fóbolti.net. Guðjón Pétur gerði starfslokasamning við Val í fyrrakvöld en var ekki lengi án félags því Atli Sigurðsson framkvæmdastjóri Breiðabliks staðfesti nýja samninginn á Facebook í kvöld.

Guðjón Pétur er 25 ára miðjumaður sem sló í gegn með Val sumarið 2011 (8 mörk og 4 stoðsendingar í 17 leikjum) og fór í kjölfarið á láni til sænska liðsins Helsingborg þar sem hann varð sænskur meistari og sænskur bikarmeistari án þess þó að fá að spila mikið.

Guðjón náði sér ekki eins vel á strik með Val síðasta sumar en hann skoraði þá 1 mark í 20 leikjum. Guðjón Pétur lék með Haukum áður en hann fór í Val.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guðjón fer í Breiðablik en hann lék einn leik með liðinu í úrvalsdeildinni sumarið 2007.

Blikar hafa nú fengið til sín þrjá sterka leikmenn en áður höfðu markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson (frá FH) og sóknarmaðurinn Ellert Hreinsson (frá Stjörnunni) samið við félagið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×