Fótbolti

Stig með okkur heim væri frábært afrek

Henry Birgir Gunnarsson í Bern skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen á æfingu liðsins í gær.
Eiður Smári Guðjohnsen á æfingu liðsins í gær. mynd / valli
„Ég geri enga kröfu um sæti í byrjunarliðinu. Ég reyni bara að sýna hvað ég get þegar ég spila og ég reyni sérstaklega að hafa gaman af þessu. Það er mikil jákvæðni í kringum íslenska liðið þessa dagana og við höfum náð að standa svolítið undir því.

Það er gríðarlegt tækifæri sem við stöndum frammi fyrir núna og við verðum að reyna að grípa það með báðum höndum,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen á hóteli íslenska liðsins í gær.

Hann hefur verið að koma sterkur inn í íslenska liðið upp á síðkastið og margir vilja sjá hann fá tækifæri í 90 mínútur.

Liðið tók eina morgunæfingu í gær en það var síðasta æfing liðsins fyrir leikinn. Leikmenn voru í hvíld seinni partinn en munu aðeins hrista sig til áður en þeir halda á Stade de Suisse í leikinn mikilvæga.

„Ég held að þetta sé þannig leikur að ef við tökum einhver stig með okkur heim væri það frábært afrek. Það er óhætt að segja að Sviss sé með sterkasta liðið í þessum riðli. Við vitum vel að þetta verður gríðarlega erfitt en við verðum að reyna að spila okkar besta leik.“

Eiður hefur ekki spilað mikið upp á síðkastið og hefur verið orðaður við brottför frá félagi sínu Club Brügge. Treystir hann sér í að spila í 90 mínútur?

„Ég er alltaf maður í að spila en tek bara því hlutverki sem mér er gefið. Það fer væntanlega eftir því hvernig við setjum leikinn upp og hvernig hann þróast. Það er alveg ljóst að við þurfum að vera mjög agaðir og þolinmóðir. Ef við gerum það þá höfum við nóga góða leikmenn og liðsheild til þess að gera út um leikinn.“

Gunnleifur Gunnleifsson markvörður var sem fyrr léttur í lundu er Fréttablaðið hitti á hann í gær. Gunnleifur hefur átt frábært ár í marki Breiðabliks og margir sem tippa á að hann verði í byrjunarliðinu í dag.

„Ég hef ekki hugmynd um hvort ég verði í byrjunarliðinu. Auðvitað er ég klár í að spila eins og allir hinir. Þjálfararnir velja liðið og við stöndum allir á bak við þá,“ sagði Gunnleifur. Verður hann ekkert brjálaður ef hann verður ekki valinn? „Ég er hættur að æsa mig yfir hlutunum. Ég held minni ró og styð mitt lið.“

Það er hvorki svartsýni í íslenska liðinu né minnimáttarkennd. Leikmenn ætla sér að koma Sviss á óvart og fá eitthvað út úr leiknum.

„Eins og venjulega hjá íslenska landsliðinu er stemningin í hópnum frábær. Ef við vinnum þrjá af síðustu fjórum leikjunum þá ættum við að vera í öðru sæti og komast í umspil. Við ætlum að reyna að ná því sem fyrst,“ sagði

Gunnleifur en í Sviss hafa heimamenn ekki miklar áhyggjur af íslenska liðinu.

„Ég vona að þeir haldi að þeir geti tekið þetta með vinstri. Við teljum okkur hafa fundið einhverja veikleika hjá þeim. Það verður svo að koma í ljós hvort það það dugar okkur í þessum leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×