Innlent

Taka ekki við fleiri leikskólabörnum

Eva Bjarnadóttir skrifar
Um fimmtíu börn á leikskólaaldri munu bætast við á biðlista Reykjavíkurborgar eftir frumgreiningu á þroskavanda. Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur tilkynnt Reykjavíkurborg að stöðin sé hætt að taka við umsóknum um frumgreiningu vegna leikskólabarna. Ástæðan er sögð vera löng bið eftir greiningu og að sambærilega þjónustu megi sækja hjá borginni.

Þroska- og hegðunarstöð hefur tekið við tilvísunum frá ung- og smábarnaeftirliti Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en frá og með áramótum verður leikskólabörnum beint til borgarinnar. Hjá Þroska- og hegðunarstöð fengust þær upplýsingar að um fimmtíu tilvísanir berist árlega vegna reykvískra leikskólabarna.

Hákon Sigurgeirsson, deildarstjóri sérfræðiþjónustu skóla í Breiðholti, segir alls staðar vera biðlista og stafi það af fjárskorti. „Reglugerðin um flutning þjónustunnar yfir til sveitarfélaga var kostnaðarmetin á sínum tíma og gerði ráð fyrir að hækka þyrfti framlög um 33 prósent. Það hefur ekki gerst,“ segir hann. Í Breiðholti eru nú 110 leikskólabörn á biðlista eftir frumgreiningu.

Heiður Rán Kristinsdóttir
Heiður Rán Kristinsdóttir sótti um frumgreiningu fyrir þriggja ára gamlan son sinn fyrir rúmum mánuði hjá sérfræðiþjónustu skóla í Laugardal. Henni var þá tjáð að biðin eftir sálfræðimati yrði að minnsta kosti eitt ár og að biðlistinn lengdist sífellt. Heiður segir mikilvægast fyrir sig að fá leiðbeiningar um hvernig taka skuli á málum, og tryggja að samfella sé á milli þess sem er gert í leikskólanum og heima. Á meðan mæðginin bíða verða haldnir reglulegir fundir með sérkennslufulltrúa og staða mála tekin. Þá er lögð rík áhersla á náið samstarf milli leikskóla og foreldra.

„Hann er mjög virkur og hress svo ég vil athuga hvort hann sé með ofvirkni,“ segir Heiður. „Það eru allir sammála um að hann sé alveg á mörkunum, og ég myndi bíða lengur með að athuga þetta ef ekki væri svona löng bið eftir aðstoð,“ segir Heiður. 



Brýnt að sinna börnunum sem fyrst

Velferðarráð bókaði mótmæli við ákvörðun Þroska- og hegðunarstöðvar á síðasta fundi sínum. Þar kemur fram að ákvörðun Þroska- og hegðunarstöðvar sé eitt margra dæma um að ríkið færi þjónustu yfir til sveitarfélaga án samráðs eða samninga um greiðslur til að mæta auknum skyldum. Í bókuninni segir meðal annars: „Við gætum að sama skapi sagt að biðlistar eftir sérfræðiþjónustu hafi lengst hjá okkur, þess vegna hættum við þjónustunni og vísum henni yfir á ríkið. Okkur hefur ekki enn dottið það í hug,“

Formaður velferðarráðs, Björk Vilhelmsdóttir, segir Reykjavíkurborg gjarnan vilja sinna börnunum en þegar verkefnið var fært til sveitarfélaga árið 2010 hafi fjármagn ekki fylgt með. Þá segir hún afar brýnt að sinna börnunum sem fyrst, því þannig náist bestur árangur „Það er félagsleg fjárfesting að veita þessum börnum stuðning. Það skiptir öllu máli fyrir þroska þeirra að snemma sé gripið inn í,“ segir Björk.

Greining hjá sérfræðiþjónustu skóla er gjaldfrjáls, en foreldrum stendur sambærileg þjónusta til boða hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum, „Hver greining kostar tugi þúsunda. Flestar fjölskyldurnar eru meðaltekjufjölskyldur og það kemur ekki til greina að velta þessum kostnaði yfir á þær,“ segir Björk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×