Innlent

Rannsaka áhrif skólamáltíða á athygli

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði.
Áhrif skólamáltíða á frammistöðu barna í skólanum og hegðun þeirra í skólastofunni verða rannsökuð í samnorrænni rannsókn nú í vetur. Hér á landi munu 200 börn í 5. bekk taka þátt í rannsókninni að því er Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði, greinir frá.

„Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu. Það er ótrúlega lítið til af rannsóknum um þýðingu skólamáltíða strax eftir að þeim lýkur,“ segir Ingibjörg.

Ljósmyndir af matardiskum barnanna verða notaðar til að meta gæði og magn þess matar sem skammtað er á diskinn. Myndir verða einnig teknar af því sem kann að vera skilið eftir. Hegðun og athygli nemenda í skólastofunni verður metin með kerfisbundnum aðferðum einni til tveimur klukkustundum eftir skólamáltíðina.

„Rannsakendur munu sitja á eins lítið áberandi hátt í skólastofunni og hægt er og mæla nokkrum sinnum á klukkustund hvort börnin gera það sem þeim er uppálagt. Þetta er bara stöðumat en við fáum upplýsingar sem hægt verður að vinna með, til dæmis um þætti sem mættu betur fara.“

Að sögn Ingibjargar er rannsókninni einnig ætlað að svara því hvaða væntingar börn hafi til skólamáltíða og hvort skipulag skólamáltíða hafi áhrif á fæðuvalið. Heildarmataræði barnanna verður jafnframt metið og fá foreldrar þeirra spurningalista.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×