Fótbolti

Pirlo hvíldur í bronsleiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andrea Pirlo, leikmaður ítalska landsliðsins, verður ekki með í bronsleiknum gegn Úrúgvæ í Álfukeppninni í Brasilíu á morgun.

Pirlo spilaði allar 120 mínúturnar gegn Spánverjum á fimmtudagskvöldið en hann hafði misst af síðasta leik á undan vegna meiðsla.

Forráðamenn landsliðsins hafa nú ákveðið að honum frí á morgun. „Hann stóð sig frábærlega gegn Spáni,“ sagði Enrico Castelacci, læknir ítalska landsliðsins. „En að höfðu samráði við þjálfarann var ákveðið að taka enga áhættu með hann.“

Andrea Barzagli verður heldur ekki með en hann meiddist í leiknum gegn Spáni og var skipt af velli í hálfleik.

Þess má svo geta að Mario Balotelli meiddist í riðlakeppninni og hélt þá heim á leið. Leikur Ítalíu og Úrúgvæ hefst klukkan 16.00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×